Skuldsett hlutabréfakaup eru áhættusöm
Skuldsett hlutabréfakaup þar sem fjárfestir leggur einungis fram hluta kaupverðsins eru í eðli sínu mjög áhættusöm og til þess fallin að auka sveiflur í ávöxtun, hvort sem er til hagnaðar eða taps. Fjárfestingin getur á endanum kostað fjárfesta fjármuni sem þeir hafa ekki efni á að tapa.
Ennfremur vill Fjármálaeftirlitið benda á að fjármagnshöft og það fjárfestingarumhverfi sem nú ríkir á Íslandi veitir enga vissu um jákvæða ávöxtun hlutabréfa. Öllum fjárfestingum, þar með talið fjárfestingum í hlutabréfum, fylgir áhætta og fjárfestar eiga ávallt á hættu að tapa fjármunum sínum að hluta til eða að fullu.