Fréttir


Jón Þór Sturluson ráðinn aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins

12.6.2013

Dr. Jón Þór Sturluson hefur verið ráðinn aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins. Jón Þór var valinn úr hópi 15 umsækjenda að undangengnu ítarlegu ráðningarferli.

Jón Þór lauk grunn- og meistaraprófi í hagfræði frá Háskóla Íslands og síðar doktorsprófi frá Viðskiptaháskólanum í Stokkhólmi (Stockholm School of Economics).

Jón Þór hefur mikla þekkingu á fjármálamarkaðinum og áhrifaþáttum fjármálastöðugleika og þjóðhagsvarúðar í gegnum kennslu, rannsóknir og ráðgjafarverkefni ýmiskonar. Stærstum hluta starfsferils síns hefur hann varið innan fræðasamfélagsins. Hann vann um árabil við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, var dósent við Háskólann á Bifröst og hefur síðustu ár unnið sem dósent við Háskólann í Reykjavík. Jón Þór sat í bankaráði Seðlabanka Íslands um tveggja ára skeið, var aðstoðarmaður viðskiptaráðherra og ráðgjafi utanríkisráðherra í efnahags- og ríkisfjármálum.

Jón Þór stóð sig afar vel í öllum þáttum ráðningarferlisins og sýndi þar fram á góða þekkingu og hæfni á þeim þáttum sem skipta máli fyrir starf aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins. Af þeim er sóttu um starfið telst Jón Þór hæfastur til starfsins.

Ákvörðun um ráðningu aðstoðarforstjóra liggur hjá forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Arnór Sighvatsson, fulltrúi Seðlabanka Íslands í stjórn Fjármálaeftirlitsins, kom að ráðningarferlinu undir lok þess. Aðalsteinn Leifsson, stjórnarformaður, kom ekki að ráðningarferlinu enda var ljóst þegar umsóknarfrestur rann út að hann þekkti til nokkurra umsækjenda og væri vanhæfur til að taka þátt í afgreiðslu málsins.

Jón Þór mun hefja störf hjá Fjármálaeftirlitinu um miðjan ágúst næstkomandi.
Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica