Fréttir


Starfsemi Bridge Group International Ltd. (Bridge)

9.2.2007

Fjármálaeftirlitið vill taka eftirfarandi fram vegna fjölda fyrirspurna sem því hefur borist er varðar starfsemi Bridge á Íslandi:

Starfsemi Bridge er ekki undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins né undir eftirliti sambærilegra eftirlitsstofnana í öðrum ríkjum, samkvæmt upplýsingum Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið hefur undir höndum stundar Bridge ekki starfsleyfisskylda starfsemi skv. lögum nr.161/2002, um fjármálafyrirtæki, en starfsemin virðist einkum ganga út á að afla og kynna meðlimum fjárfestingarmöguleika.

Þau fyrirtæki sem meðlimir Bridge fá kynningu á í gegnum aðild sína, eru ekki skráð á markað. Um almenn útboð verðbréfa gilda lög nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og reglugerðir nr. 242/2006, 243/2006 og 244/2006. Samkvæmt íslenskum lögum er almennt óheimilt að selja almenningi óskráð verðbréf nema á grundvelli útboðslýsingar í almennu útboði. Slíkar lýsingar þurfa að hljóta staðfestingu Fjármálaeftirlitsins áður en sala hefst. Slíkri staðfestingu er ætlað að stuðla að fjárfestavernd með því að tryggja að allar upplýsingar komi fram sem eru fjárfestum nauðsynlegar til þess að meta fjárfestingarkosti og að þær séu settar fram á skýran og greinargóðan hátt.

Að gefnu tilefni upplýsist að Fjármálaeftirlitið hefur einungis staðfest eina lýsingu vegna fyrirtækis sem kynnt hefur verið meðlimum Bridge á Íslandi, en í því tilviki var um að ræða útboð á fyrirtækinu Mindark, í nóvember 2005.

Fjármálaeftirlitið vill enn fremur ítreka að kaup á verðbréfum eru í eðli sínu áhættufjárfesting og eru fjárfestar hvattir til að kynna sér vel þá áhættu sem felst í fjárfestingu slíkra bréfa. Fjárfestar eru hvattir til að leita sér ráðgjafar sérfræðinga áður en ákvörðun er tekin um að fjárfesta. Bridge veitir ekki slíka sérfræðiráðgjöf, eins og kemur fram í fyrirvara á heimasíðu Bridge. Fjárfestar eru einnig hvattir til að kynna sér vel efni lýsinga sem fylgja þeim fjárfestingarkostum sem standa til boða og að ganga úr skugga um að þær hafi hlotið staðfestingu þar til bærra yfirvalda.


 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica