Engir ágallar á málsmeðferð Fjármálaeftirlitsins
Umboðsmaður Alþingis hefur lokið athugun máls vegna ákvörðunar stjórnar Fjármálaeftirlitsins þann 11. september 2013 um að sekta nokkra einstaklinga vegna brota gegn 1. mgr. 45. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti (vvl.). Eftir að hafa kynnt sér gögn málsins og skýringar Fjármálaeftirlitsins taldi umboðsmaður Alþingis ekki ástæðu til að taka málið til frekari skoðunar og tilkynnti Fjármálaeftirlitinu um lok þess með bréfi dagsettu þann 30. júní sl. Reifun á þeim atriðum sem umboðsmaður tók til skoðunar er að finna hér að neðan.
1. Hvort Fjármálaeftirlitið hefði tilkynnt of seint um að málið væri til meðferðar hjá stofnuninni.
Upphaf málsins má rekja til þess að endurskoðunarfyrirtæki gerði athugun á tilteknum þáttum í starfsemi félagsins X sem lauk með skýrslu 27. apríl 2012. Rannsókn Fjármálaeftirlitsins á þeim hluta skýrslunnar sem varðaði brot umræddra einstaklinga hófst haustið 2012 en þá var farið í gagnaöflun og gagnaúrvinnslu. Þegar úrvinnslu gagna var lokið og búið að staðreyna það sem kom fram í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins sendi Fjármálaeftirlitið einstaklingunum bréf þann 22. febrúar 2013, ásamt gögnum, og óskað eftir andmælum þeirra í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga.
Umboðsmaður Alþingis taldi eðlilegt að Fjármálaeftirlitið mæti hvort ástæða væri til þess að taka tiltekið mál til frekari athugunar. Fjármálaeftirlitið hefði jafnframt ákveðið svigrúm þegar það tæki afstöðu til þess hvort tilteknar upplýsingar leiddu til þess að þörf væri á frekari rannsókn og gagnaöflun áður en ákvörðun væri tekin um að hefja mál gagnvart einstökum aðilum og tilkynna þeim um slíka athugun skv. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umboðsmaður sagði ekkert benda til þess að Fjármálaeftirlitið hefði dregið óþarflega að tilkynna einstaklingunum um málið og óska eftir andmælum.
2. Hvort Fjármálaeftirlitið hefði vanrækt rannsóknarskyldu þar sem ekki var rætt við aðila um sakarefnin.
Umboðsmaður Alþingis taldi að það væri á valdi stjórnvalda að ákveða hvort aðila gæfist kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum munnlega eða skriflega, ef lög kvæðu ekki á um annað. Fjármálaeftirlitinu bar því ekki skylda til að gefa viðkomandi kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri munnlega.
3. Hvort Fjármálaeftirlitið hefði brotið gegn leiðbeiningarskyldu með því að upplýsa ekki nákvæmlega um þá refsingu sem til álita kæmi.
Umboðsmaður kvað það ekki leiða af leiðbeiningarskyldu stjórnvalds skv. 7. gr. stjórnsýslulaga að það tæki fyrirfram efnislega afstöðu til þess hvort tiltekin atvik í máli samrýmdust gildandi lögum eður ei þegar mál væri enn til meðferðar hjá stjórnvaldinu, eða tilgreindi nákvæmlega hvaða refsing kæmi til álita, yrði niðurstaðan sú að um brot á lögum væri að ræða. Fjármálaeftirlitinu bar því ekki að tilgreina nákvæmlega þá refsingu sem til álita kæmi.
4. Hvort Fjármálaeftirlitið hefði gætt jafnræðis við beitingu stjórnvaldssekta og hvort Fjármálaeftirlitið hefði vanrækt leiðbeiningarskyldu með því að geta ekki um heimild til að ljúka máli með sátt
Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að lagaákvæðið sem heimilar Fjármálaeftirlitinu að ljúka máli með sátt (142. gr. vvl.) heimili stofnuninni mat um það í hvaða tilvikum komi til greina að ljúka máli með sátt. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefði Fjármálaeftirlitið ekki gert sátt í málum er varða brot á 1. mgr. 45. gr. laganna en stofnunin hefði hins vegar beitt stjórnvaldssektarheimild sinni vegna brota á ákvæðinu í fjögur skipti að undanskildu þessu máli. Þau mál sem Fjármálaeftirlitið hafði lokið með sátt eftir að ákvörðun í þessu máli lá fyrir, vörðuðu ekki brot á sama lagaákvæði og því taldi umboðsmaður ekki hægt að fullyrða að um sambærileg mál hefði verið að ræða, en til þess að mál gætu talist sambærileg þyrftu atvik og hin lagalega aðstaða í málunum að vera sambærileg.
5. Hvort Fjármálaeftirlitinu hefði verið stætt á að synja um aðgang að tilteknum gögnum.
Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að gögnin sem Fjármálaeftirlitið synjaði um aðgang að tilheyrðu ekki málinu og því hefði Fjármálaeftirlitið ekki brotið upplýsingarétt í skilningi 15. gr. stjórnsýslulaga.