Fjármálaeftirlitið gefur út nýjar reglur
Fjármálaeftirlitið hefur gefið út reglur nr. 712/2014 um yfirfærða útlánaáhættu vegna verðbréfunar og reglur nr. 713/2014 um breytingu á reglum nr. 215/2007, um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, með síðari breytingum. Þá hafa enn fremur verið gefnar út reglur nr. 728/2014 um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt.
Reglur nr. 712/2014, um yfirfærða útlánaáhættu vegna verðbréfunar, fela í sér mismunandi skyldur sem fjármálafyrirtæki bera, eftir því hvort þau eru fjárfestar, útgefendur, umsýsluaðilar eða upphaflegir lánveitendur. Meginefni reglnanna felur í sér afmörkun á skilyrðum sem verðbréfaðar eignir verða að uppfylla, svo þær verði taldar með í bókum fjármálafyrirtækisins sbr. 1. mgr. 3. gr.
Með reglum nr. 713/2014 eru gerðar breytingar á reglum nr. 215/2007. Með setningu reglanna er tilskipun 2010/76/ESB að fullu innleidd hér á landi. Með þessu verður regluverk á fjármálamarkaði, sem snýr að útreikningi á eiginfjárkröfum, í samræmi við alþjóðlegu Basel 2.5 viðmiðin. Að auki eru gerðar breytingar sem rekja má til endurskoðunar á reglum um stórar áhættuskuldbindingar. Í þeim hefur verið bætt við nýju ákvæði sem varðar áhættuskuldbindingar vegna mótaðila innan sömu samstæðu og fjármálafyrirtækið sjálft. Ákvæðið felur í sér nánari skilyrði sem uppfylla þarf til að slíkar áhættuskuldbindingar teljist til frádráttarliða samkvæmt reglum um stórar áhættuskuldbindingar.
Með reglum nr. 728/2014 um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ljúka málum með sátt verða nokkrar breytingar á þeim reglum sem áður giltu og er þeim aðallega ætlað að gera málsmeðferðina við gerð sátta gagnsærri og skýra betur réttindi og skyldur málsaðila. Með breytingunum eru tilvísanir í reglunum einnig uppfærðar með tilliti til lagabreytinga.