Basel II: Stjórnir fjármálafyrirtækja séu meðvitaðar um áhætturnar
Tímaritið Fjárstýring, sem IFS Ráðgjöf gefur út, birtir í nýjasta tölublaði sínu viðtal við Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóra FME, um undirbúning og innleiðingu á nýjum lögum og reglum um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, svokallaðar Basel II reglur.
Undirbúningur og innleiðing
Í viðtalinu segir Ragnar undirbúningsvinnu vegna innleiðingar Basel II reglnanna hafa verið mikla undanfarin tvö ár en að nú sjái fyrir endann á setningu helstu reglna og leiðbeinandi tilmæla í því sambandi. Að sögn Ragnars er meginhugmyndin að baki Basel reglnanna að lögbinda ákveðið lágmark eiginfjár fjármálafyrirtækja þannig að þau geti þolað talsverð fjárhagsleg áföll án þess að þau lendi í greiðsluþroti. “Þessar reglur eru byggðar á alþjóðlegum staðli frá Basel-nefndinni um bankaeftirlit, svonefndum Basel II staðli, sem gefinn var út í júní 2004”, segir Ragnar og bætir við að staðallinn komi í stað eldri staðals um eigið fé alþjóðlegra fjármálafyrirtækja [Basel I].
Stoðirnar þrjár
Meginmunurinn á Basel I og II er, að sögn Ragnars, einkum að ákvörðun um lágmark eiginfjár fjármálafyrirtækja verði byggð á nákvæmari viðmiðum en hingað til, þannig geti fyrirtæki sem hafa góða stjórn á áhættum sínum notið þess við útreikning á eiginfjárkröfunni. Hann segir reglurnar byggja á þremur megin stoðum [e. Pillars]. Stoð 1 byggi á samræmdum reglum og lágmarks eiginfjárþörf, stoð 2 eigi að styrkja tengslin milli mats fjármálafyrirtækisins á áhættum tengdum starfsemi þess, áhættustjórnunar og þeirra kerfa sem notuð eru til að draga úr áhættu og eiginfjárgrunns. Eftirlitsaðilar eiga að kanna og meta innra mat fjármálafyrirtækisins á eiginfjárþörf auk innri ferla og eiga að grípa tímanlega til aðgerða til að koma í veg fyrir að eigið fé fari niður fyrir lágmarkskröfur. “Stjórn fjármálafyrirtækis ber frumábyrgð á að ferlar og nægilegt fé sé til staðar” segir Ragnar. Stoð 3 tekur til markaðsaðhalds og gerir kröfur um aukna upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja til markaðsaðila um áhættustýringu og eiginfjárstöðu.
Hlutverk FME
Ragnar segir að frumvarp um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki hafi verið samþykkt 9. desember síðastliðinn á Alþingi og að reglurnar um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja verði tilbúnar á næstu vikum. Jafnframt var aukið við heimildir FME til að fylgja eftir að eigið fé fjármálafyrirtækja sé í samræmi við áhættusamsetningu. Hann segir að eftirlitsaðilar eigi að kanna og meta innra mat fjármálafyrirtækisins á eiginfjárþörf auk innri ferla og grípa tímanlega til aðgerða til að koma í veg fyrir að eigið fé fari niður fyrir lágmarkskröfur. “Þá mun Fjármálaeftirlitið þróa eigið áhættumatskerfi (Risk Assessment System) fyrir fjármálafyrirtæki sem uppfylla [tilteknar] kröfur”.
Stjórnir fjármálafyrirtækja marki stefnu í áhættutöku
Ragnar segir það jákvæða við innleiðingu Basel II reglnanna vera að eiginfjárreglurnar muni stuðla að því að einstök fjármálafyrirtæki munu þurfa að gera sér betur en áður grein fyrir áhættunum og hver sé eðlileg eiginfjárkrafa í því sambandi. “Sérstök áhersla er lögð á eftirlit með áhættum innan viðkomandi fjármálafyrirtækja, bæði að þær séu mældar og fylgst sé með þeim og að innri eftirlitsþættir séu með fullnægjandi hætti. Þátttaka og aðild stjórnar fjármálafyrirtækja fær meiri áherslu en áður þannig að stjórnir séu meðvitaðar um áhætturnar og marki stefnu í áhættutöku og áhættuviðmið. Allt er þetta mjög jákvætt og gerir alla meðvitaðri um tilheyrandi áhættur sem þetta gengur allt út á og að nýta fjármagnið og eigið fé sem best til hagsbóta fyrir alla hagsmunaaðila”.
Viðtalið við Ragnar Hafliðason er birt í heild sinni á heimasíðu FME, með góðfúslegu leyfi IFS Ráðgjafar.