Samráð vegna val- og heimildarákvæða CRD IV
Fjármálaeftirlitið hefur sent fjármálafyrirtækjum dreifibréf þar sem vísað er til fyrri samskipta vegna innleiðingar á CRD IV löggjöfinni, tilskipun 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 575/2013, en löggjöfin mun koma Basel III staðlinum á fót með samræmdum hætti innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Í dreifibréfinu kemur fram að fjármála- og efnahagsráðuneyti hafi falið Fjármálaeftirlitinu að vinna að nauðsynlegum undirbúningi svo hægt verði að lögfesta reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Mikilvægt verður að nýta val- og heimildarákvæði reglugerðarinnar með þeim hætti að reglugerðin, eftir lögfestingu hennar, hæfi íslenskum aðstæðum.
Með dreifibréfinu er fjármálafyrirtækjum gefið tækifæri til að veita umsögn um þau val- og heimildarákvæði sem fyrirtækin telja mikilvægt að nýta. Ennfremur sendir Fjármálaeftirlitið með dreifibréfinu eyðublað um beitingu val- og heimildarákvæða reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Óskað er eftir að fram komi í umsögninni, sem vinna skal með því að fylla út eyðublaðið, hvernig nýta eigi viðkomandi ákvæði. Ekki er nauðsynlegt að veita umsögn um sérhvert val- eða heimildarákvæði, en þeim mun mikilvægara að greina með skýrum hætti frá afstöðu til veigamikilla ákvæða.
Óskað er eftir að útfylltum eyðublöðum verði skilað til Fjármálaeftirlitsins fyrir 30. september nk.
Á grunni samráðsins verða mótaðar tillögur um beitingu val- og heimildarákvæða reglugerðarinnar. Fjármálaeftirlitið ráðgerir að sent verði út umræðuskjal með drögum að texta sem fylgja mun reglugerð (ESB) nr. 575/2013, þar sem kveðið verður á um hvernig heimildarákvæðunum verður beitt. Fjármálaeftirlitið áætlar að lögfesting reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 geti að undangengnu þessu ferli verið unnin á sambærilegum tíma hér á landi og í öðrum EES-ríkjum, þannig að CRD IV löggjöfin verði í heild sinni lögfest hér á landi í ársbyrjun 2015.
Fjármálaeftirlitið vekur einnig athygli á að komið hefur verið upp upplýsingasíðu á vefsíðu FME, þar sem farið er yfir efni sem við kemur innleiðingu CRD IV. Fyrirspurnir vegna þessa erindis eða annars efnis sem tengist CRD IV og innleiðingu löggjafarinnar má senda á netfangið crdiv@fme.is.