Fréttir


Fjármálaeftirlitið hlýtur Samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2014

22.9.2014

Samgönguviðurkenning Reykjavíkurborgar var veitt síðastliðinn föstudag í tengslum við evrópska samgönguviku og  hlaut Fjármálaeftirlitið viðurkenninguna í hópi lítilla vinnustaða. Landspítalinn fékk Samgönguviðurkenningu í hópi stórra vinnustaða. Við sama tækifæri var Sesselja Traustadóttir heiðruð sérstaklega sem frumkvöðull en hún hefur verið mjög ötul við að hvetja borgarbúa til að nýta sér hjólreiðar sem samgöngumáta.Unnur Gunnarsdóttir tekur við viðurkenningu

Samgöngustefna var innleidd hjá Fjármálaeftirlitinu í júní 2013 og um leið voru teknir upp samgöngusamningar við starfsfólk. Árangurinn varð sá að um þriðjungur starfsmanna var með samning um mitt ár 2014. Þá lækkaði hlutfall þeirra sem koma oftast einir í bíl  samkvæmt ferðavenjukönnun Fjármálaeftirlitsins, úr 84% í 58% á milli ára. Enn fremur hefur komið í ljós að þeir starfsmenn sem eru með virkan samgöngusamning eru almennt minna frá vegna veikinda en þeir sem eru ekki með samning.

Unnur Gunnarsdóttir tók við viðurkenningunni fyrir hönd Fjármálaeftirlitsins. Á myndinni hér fyrir ofan má sjá frá vinstri Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, Sesselju Traustadóttur sem heiðruð var fyrir frumkvöðlastarf, Unni Gunnarsdóttur, forstjóra Fjármálaeftirlitsins og Dag B. Eggertsson borgarstjóra.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica