Fréttir


FME: Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

3.4.2007

Peningaþvætti er alþjóðlegt vandamál en með vaxandi heimsvæðingu viðskipta og frelsi í fjármagnsflæði milli ríkja hefur það orðið mikilvægur þáttur í alþjóðlegri glæpastarfsemi, svo sem fíkniefnaviðskiptum og hryðjuverkum. Fjármálaeftirlitið hefur sent frá sér umræðuskjal um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem eru drög að leiðbeinandi tilmælum FME um það hvernig eftirlitsskyldir aðilar skuli framfylgja ákvæðum laga um peningaþvætti nr. 64/2006. Tilgangurinn er að skýra ýmis atriði laganna og geta tilmælin orðið grundvöllur krafna FME um úrbætur með tilvísun til laga og reglna um efnið.

Samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka má skipta skyldum eftirlitsskyldir aðila í þrjá meginþætti:

  1. Könnun á áreiðanleika viðskiptamanna við upphaf viðskiptasambands og við einstök viðskipti og varðveislu ljósrita af persónuskilríkjum ásamt öðrum viðskiptagögnum.
  2. Athugun á öllum grunsamlegum viðskiptum og tilkynning til lögreglu, hafi grunur ekki fallið niður við könnun.
  3. Að sjá til þess að innri starfsþættir séu í góðu horfi, s.s. innra eftirlit, skriflegar reglur, kerfi til að bregðast skjótt við fyrirspurnum lögreglu og yfirvalda, að hugað sé að þjálfun starfsmanna og tilnefning á sérstökum ábyrgðarmanni á málaflokknum úr hópi stjórnenda.

Rekstrar- og orðsporsáhætta
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, segir mikilvægt að eftirlitsskyldir aðilar leggi áherslu á aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.  ,,Þó svo að við teljum okkur búa við nokkuð örugg skilyrði hvað þetta varðar í okkar litla samfélagi þá mega menn ekki sofna á verðinum. Glæpamenn hafa mikið ímyndunarafl og eru lagnir við að villa á sér heimildir eða fela slóð sína”. Jónas segir mikið í húfi fyrir fyrirtækin. ,,Ef fyrirtækin hafa ekki nægilega góða eftirlitsferla til staðar hvað þetta varðar getur það falið í sér rekstraráhættu fyrir viðkomandi fyrirtæki. Í þessu felst einnig orðsporsáhætta sem getur haft veruleg áhrif, ekki bara fyrir einstök fjármálafyrirtæki, heldur fyrir fjármálakerfið í heild sinni”.

Jónas segir að Fjármálaeftirlitið leggi  áherslu á ábyrgð stjórnar og æðstu stjórnenda eftirlitsskylds aðila í þessum efnum. “Það er fyrst og fremst þeirra að sjá til þess að aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé sinnt með fullnægjandi hætti í starfsemi fyrirtækisins”, segir Jónas.

Eigum að standa nágrannaþjóðunum framar
Ísland er aðili að alþjóðlegum vinnuhóp, Financial Action Task Force on Money Laundering (FATF), sem vinnur að aðgerðum gegn peningaþvætti.  Á árinu 2006 gerði FATF úttekt á íslensku fjármálakerfi, lagaumhverfi og lagaframkvæmd stofnana og fyrirtækja varðandi aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.  Slíkar úttektir eru gerðar á nokkurra ára fresti en árið 1997 hafði áður farið fram úttekt á Íslandi á vegum FATF.    Jónas segir að í  úttekt FATF vinnuhópsins á síðasta ári hafi komið fram að staða Íslands er svipuð og hinna Norðurlandanna varðandi þessi mál.  ,,Ég er þó þeirrar skoðunar að við eigum að kappkosta að standa þeim feti framar í þessum efnum – slíkt forskot eykur traust og trúverðugleika íslensks fjármálamarkaðar og veitir íslenskum fjármálafyrirtækjum um leið forskot í samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum” segir Jónas.

Umræðuskjalið um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hefur verið sent eftirlitsskyldum aðilum til umsagnar.  Nálgast má umræðuskjalið hér.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica