Fréttir


Niðurstaða athugunar FME á myndun virks eignarhlutar í Glitni

30.4.2007

Þann 10. apríl sl. var tilkynnt í fréttakerfi OMX (kauphöll) um viðskipti með 19,46% hlut í Glitni sem voru í eigu Einars Sveinssonar, Karls Wernerssonar og tengdra aðila. Kaupþing banki hf. hafði milligöngu um viðskiptin og kaupendur voru eftirtaldir aðilar:

• Jötunn Holding ehf.
• Elliðatindar ehf.
• Sund Holding ehf.
• Saxbygg Invest ehf.
• Glitnir banki hf.

FME taldi ástæðu til þess að taka framangreind viðskipti til frekari skoðunar með tilliti til ákvæða laga um fjármálafyrirtæki um heimild til að fara með virkan eignarhlut. Það er niðurstaða FME að þau tengsl séu milli Jötuns Holding ehf., Elliðatinda ehf., Sunds Holding ehf. og FL Group hf. að félögin teljist í samstarfi um meðferð virks eignarhlutar í Glitni banka hf. á grundvelli 40. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 40. gr. a. sömu laga.  Þar sem framangreindir aðilar hafa ekki hlotið samþykki Fjármálaeftirlitsins til meðferðar á hinum virka eignarhlut hefur Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um að takmarka atkvæðisrétt þeirra í Glitni við að hámarki 32,99%, sbr. 45. gr. laganna.

Aðkoma Saxbygg Invest ehf. að viðskiptunum er enn til skoðunar hjá FME.

Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME:
,,Miðað við þau gögn sem fyrir liggja er það okkar mat að FL Group og tilgreindir aðilar teljist í samstarfi. Af þeim sökum telur FME að réttast sé að líta svo á að framangreindir aðilar fari sameiginlega með virkan eignarhlut í Glitni umfram heimildir aðila. Að okkar mati þurfa þessir aðilar því að sækja um heimild til að fara með aukinn hlut og verður hæfi þeirra til þess þá metið sérstaklega".

,,Það er hlutverk FME að hafa eftirlit með virkum eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum en í því sambandi má benda á áhyggjur erlendra aðila á þröngu eignarhaldi í íslenskum fjármálafyrirtækjum. Enginn ætti að þurfa að efast um að FME gerir sitt ýtrasta til þess að sinna þessari skyldu sinni. Að baki þessari ákvörðun liggur mikil gagnasöfnun og greiningarvinna sérfræðinga FME og ég er stoltur af faglegum vinnubrögðum starfsmanna FME við skoðun málsins”.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica