FME: Útrás íslenskra fjármálafyrirtækja til Kína
Fjármálaeftirlitið stendur fyrir morgunverðarfundi mánudaginn 11. júní nk. á Hotel Nordica um útrás íslenskra fjármálafyrirtækja. Í tilefni heimsóknar kínverska bankaeftirlitsins verður sérstaklega fjallað um möguleika og umgjörð kínverska bankamarkaðarins. Formaður kínverska eftirlitsins mun ávarpa fundinn og fjalla um bankastarfsemi í Kína. Lárus Welding, forstjóri Glitnis, mun fjalla um starfsemi Glitnis í Kína og þá möguleika sem bankinn sér á þeim markaði.
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, mun fjalla um þau áhrif sem útrás fjármálafyrirtækja hefur haft á starfsemi FME og kynna stefnu FME um erlenda starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja.
,,FME starfar orðið í mjög alþjóðlegu umhverfi. Íslensk fjármálafyrirtæki starfa víða og það gerir auknar kröfur til FME", segir Jónas Fr. Jónsson.
"Það er ekki spurning að samræmd löggjöf á EES svæðinu auðveldar eftirlitsþáttinn vegna fjármálastarfsemi í Evrópu, hinsvegar eykst flækjustigið þegar fjármálafyrirtækin færa sig inn á aðra markaði þar sem regluumhverfið er ólíkt því sem gerist í Evrópu, td. eins og í tilfelli Kína. Í slíkum tilfellum gera eftirlitsaðilar landanna með sér samstarfssamninga um eftirlit og upplýsingaskipti og er stefnt að því að undirrita einn slíkan með fulltrúum kínverska bankaeftirlitsins nú eftir helgi”
Morgunverðarfundurinn fer fram á Hótel Nordica mánudaginn 11. júní og stendur frá kl. 8:15-10:00. Þátttökugjald eru 2.150 kr. og skráning fer fram hjá fme@fme.is
Dagskrá fundarins má nálgast hér.