Fréttir


FME: Samanlagður hagnaður vátryggingafélaganna um 19,5 milljarðar á árinu 2006

30.7.2007

Hagnaður innlendu skaðatryggingafélaganna eftir skatt var rúmlega 19,5 milljarðar kr. árið 2006 samanborið við rúmlega 20,2 milljarða kr. árið 2005.  Um 85% af hagnaði félaganna árið 2006 stafar af fjármálarekstri sem er þó rúmlega 9 milljarða lækkun kr. frá árinu 2005.  Afkoma af skaðatryggingarekstri félaganna hefur batnað umtalsvert frá árinu 2005 og stafar það m.a. af hækkun iðgjalda.  Eignir skaðatryggingafélaganna hafa aukist á milli ára og eru nú um 156 milljarðar kr. en voru árið 2005 um 128 milljarðar kr. Eftirfarandi mynd sýnir samanlagðan hagnað af starfsþáttum innlendra vátryggingafélaga fyrir skatt á föstu verðlagi síðustu þrjú ár.

Frett.30.07.2007.Mynd1

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur birt á vefsíðu sinni töflur ásamt skýringum með sundurliðun vátryggingagreina og ársreikningum íslenskra vátryggingafélaga fyrir árið 2006 sem styðjast við tölulegar upplýsingar frá vátryggingafélögunum.  Ársreikningar og sundurliðun rekstrar eftir vátryggingagreinum er gerður á ábyrgð hvers vátryggingafélags.
Helstu greinar skaðatrygginga skiluðu hagnaði á árinu 2006 að undanskildum slysa- og sjúkratryggingum sem er viðsnúningur frá árinu 2005 þegar flestar greinar voru reknar með tapi. Iðgjöld jukust í öllum greinaflokkum nema sjó-, flug- og farmtryggingum. Mest var aukningin í flokki ábyrgðartrygginga, eða 35%.

51% iðgjalda í skaðatryggingum vegna ökutækjatrygginga
Um 51% iðgjalda í skaðatryggingum er vegna ökutækjatrygginga. Iðgjöld í greininni hafa hækkað að undanförnu og var greinin rekin með 314 milljóna kr. hagnaði á árinu eftir tap á árinu 2005. Um 1 milljarðs kr. hagnaður var af rekstri lögboðinna ökutækjatrygginga en frjálsar ökutækjatryggingar voru hins vegar reknar með 720 milljóna kr. tapi.

Frett.30.07.2007.Mynd2
 
Afkoma líftryggingafélaga batnar á milli ára
Afkoma innlendu líftryggingafélaganna hefur batnað talsvert á milli ára.  Samanlagður hagnaður félaganna á árinu 2006 var tæplega 1,5 milljarðar kr. samanborið við 960 milljónir kr. á árinu 2005.  Um 86% af hagnaði félaganna árið 2006 stafar af líftryggingarekstri og hefur afkoman af þessum hluta batnað mikið á milli ára.  Ástæða þessa er m.a. hækkun á iðgjöldum í sjúkdómatryggingum á árinu 2006.  Eignir líftryggingafélaganna hafa aukist um 13% á milli ára og eru nú um 14,7 milljarðar kr. en voru árið 2005 um 13,1 milljarðar kr.  Líftryggingafélögin eru öll í eigu skaðatryggingafélaga eða annarra félaga á fjármálamarkaði.

Frett.30.07.2007.Mynd3

Sundurliðun vátryggingagreina og ársreikninga á Excel formi.

Nánari upplýsingar veita Sigurður Freyr Jónatansson (sigurdur@fme.is) eða Kristinn Bjarnason (kristinn@fme.is ).


 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica