Fréttir


Reglur um fjárfestingaráðgjöf

25.10.2007

Nýjar reglur á verðbréfa- og fjármálamarkaði kveða á um að aðilar sem veita fjárfestingaráðgjöf munu eftir 1. nóvember n.k. þurfa sérstakt starfsleyfi til að sinna þeirri starfsemi, sbr.  6. tl. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (ffl.) eins og þeim var breytt með lögum nr. 111/2007. Fjármálaeftirlitið veitir starfsleyfin. Reglur þessar tengjast innleiðingu tilskipunar um markaði með fjármálagerninga, svokallaðrar MiFID tilskipunar.

Samkvæmt MiFID tilskipuninni eru gerðar margskonar kröfur til fjárfestingaráðgjafa og eru þær í mörgum tilvikum sambærilegar kröfum sem nú eru gerðar til annarra fjármálafyrirtækja. Þó eru þær ekki að öllu leyti eins, t.d. ekki varðandi eigið fé fjárfestingaráðgjafa. Þess í stað ber þeim að taka vátryggingu gegn hugsanlegum skaðabótakröfum. Kröfur sem gerðar eru til stjórnar fjárfestingaráðgjafarfyrirtækja og eftirlits með þeim eru sambærilegar þeim reglum sem gilda í dag um fjármálafyrirtæki.

Persónuleg ráðgjöf er varðar viðskipti sem tengjast fjármálagerningum.
Með fjárfestingaráðgjöf er í tilskipuninni átt við það að veita viðskiptavini persónulegar ráðleggingar varðandi viðskipti sem tengjast fjármálagerningum. Ráðgjöfin skal miðast við persónulegar aðstæður viðskiptamannsins og undir fjárfestingaráðgjöf falla einnig hvers konar skýringar, upplýsingar um áhættu og upplýsingar um afleiðingar af tilteknu vali.

Það er því um þrjú grundvallarskilyrði að ræða til þess að þjónusta teljist fjárfestingaráðgjöf, í þessum skilningi.

1. Ráðgjöfin varðar tiltekna fjármálagerninga.
Fjármálagerningur er skilgreindur í 2. tl. 1. mgr. 2. gr. vvl. Til fjármálagerninga teljast t.d. hlutabréf og skuldabréf.

2. Ráðgjöfin er veitt persónulega til viðskiptavinar.
Með þessu er átt við að ráðgjöfin verður að byggjast á mati á högum viðkomandi viðskiptamanns og því hvort gerningurinn sé viðeigandi og hæfi honum.

3. Ráðgjöf til hóps viðskiptamanna telst því ekki vera fjárfestingaráðgjöf, nema slíkt mat hafi farið fram fyrir hvern þeirra.
Til dæmis getur verið um að ræða upplýsingar um tilteknar tegundir fjármálagerninga eða upplýsingar um þróun á tilteknum mörkuðum. Aðili sem einungis veitir almennar leiðbeiningar til fjölda nafngreindra einstaklinga, t.d. í formi fréttabréfs með greiningum og mati á stöðu og stefnu markaðarins, telst ekki veita fjárfestingaráðgjöf þar sem ekki er um persónulega ráðgjöf að ræða. Almenn ráðgjöf getur aftur á móti verið liður í persónulegri fjárfestingaráðgjöf.

Í ráðgjöfinni verður að felast ráðlegging um tilteknar aðgerðir (aðgerðarleysi).

Þessar aðgerðir geta t.d. verið:

  •  Að kaupa, selja, skrá sig fyrir, skipta, innleysa, varðveita eða tryggja tiltekinn fjármálagerning eða, 
  • nýta eða nýta ekki rétt sem tiltekinn fjármálagerningur veitir til að kaupa, selja, skrá sig fyrir, skipta eða innleysa fjármálagerning.

 

Sjá skýringar við reglur um fjárfestingaráðgjöf .

 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica