FME gerir ekki athugasemdir við óbeint eignarhald Borse Dubai á OMX Nordic Exchange
Þann 12. nóvember sl. tilkynnti Fjármálaeftirlitið Borse Dubai að eftirlitið geri ekki athugasemdir við óbeint eignarhald fyrirtækisins á OMX Nordic Exchange á Íslandi og Verðbréfaskráningu Íslands. Á grundvelli 6. gr. laga nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða sendi Borse Dubai tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins í tilefni af kaupum þess á virkum eignarhlut í OMX AB en OMX Nordic Exchange er í fullri eigu OMX AB.
Sænska Fjármálaeftirlitið tilkynnti sama dag að það teldi Borse Dubai hæfan aðila til þess að fara með virkan eignarhlut í OMX AB.