Fréttir


Útlán til venslaðra aðila um 7,2% af heildarútlánum viðskiptabankanna og stærstu sparisjóða.

19.11.2007

Á miðju ári 2007 námu heildarútlán til venslaðra aðila hjá viðskiptabönkunum og stærstu sparisjóðum 7,2% af heildarútlánum þeirra til viðskiptavina en sambærilegt hlutfall var 6,5% á sama tíma á árinu 2006. Þá námu heildarútlán til venslaðra aðila 43% af samtölu eiginfjárgrunna þessara sömu félaga á miðju ári 2007 á móti 38,6% á sama tíma á síðasta ári. Athygli vekur að hlutföllin hafa lækkað hjá viðskiptabönkunum en hækkað hjá sparisjóðunum.

Fjármálaeftirlitið kallar reglulega eftir upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum um fyrirgreiðslu til ofangreindra aðila. Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, segir markmiðið vera að staðreyna að eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir séu viðhafðir í viðskiptum fjármálafyrirtækja við tengda aðila. ,,Þetta eru atriði sem við leggjum mikla áherslu á og teljum mikilvæg fyrir íslenskan fjármálamarkað", segir Jónas.

Útlán til venslaðra aðila sem hlutfall
af heildarútlánum til viðskiptavina

 30.06.06

 30.06.07

 Viðskiptabankar

  7,5%

  6,8%

 5 stærstu sparisjóðir

  1,5%

  2,4%



Útlán til venslaðra aðila sem hlutfall af  eiginfjárgrunni

 30.06.06

 30.06.07

 Viðskiptabankar

 43,8%

 39,3%

5 stærstu sparisjóðir

 14,9%

 20,1%



 Tafla: Útlán til venslaðra aðila

Ytri endurskoðandi fari yfir fyrirgreiðslur
Á árinu 2006 gerði Fjármálaeftirlitið breytingar á leiðbeinandi tilmælum um efni starfsreglna stjórna fjármálafyrirtækja. Meginbreytingin felst í að Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um að fjármálafyrirtæki leggi fyrir ytri endurskoðanda að fara yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og bera saman við sambærileg viðskipti annarra viðskiptavina og gefa rökstutt álit meðal annars m.t.t. kjara, endursamninga og stöðu viðkomandi (armslengdarsjónarmið).  Gerðar eru kröfur um að skýrslur ytri endurskoðenda verði sendar árlega til FME fyrir fjármálafyrirtæki þar sem niðurstaða efnahagsreiknings samstæðu er yfir 50 milljarða króna en annað hvert ár fyrir önnur fjármálafyrirtæki.  FME gerir kröfu um að skýrslurnar séu greinagóðar og tæmandi og gefi rétta mynd af fyrirgreiðslum til venslaðra aðila.

Lánshæfismatsfyrirtæki áhugasöm um reglurnar.
“Það er mikilvægt að íslensku fjármálafyrirtækin séu í fararbroddi hvað varðar góða stjórnarhætti og gegnsæja eftirfylgni við innri reglur. Ein leið til þess að tryggja góða stjórnarhætti er að eigendur fjármálafyrirtækja gæti þess að viðskiptatengsl byggi á armslengdarsjónarmiðum og hugi vel að hæfiskröfum við töku einstakra ákvarðanna. Mikilvægi þessa verður seint undirstrikað þegar íslensku fyrirtækin verða sífellt alþjóðlegri”, segir forstjóri FME. Hann segir að fulltrúar erlendra lánshæfismatsfyrirtækja hafi sýnt þessum reglum FME nokkurn áhuga. “Þessir aðilar hafa nefnt það í skýrslum sínum að þessar reglur dragi úr áhyggjum á þröngu eignarhaldi íslenskra fjármálafyrirtækja og efli traust þeirra á eftirliti með markaðnum”, segir Jónas.

Fjallað verður um þróun og horfur á íslenskum fjármálamarkaði á ársfundi FME 27. nóvember nk.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica