Staða íslenskra fjármálafyrirtækja
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, fjallaði um stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja á fundi hjá félagi um fjárfestatengsl í morgun (15. janúar). Í erindi sínu ræddi Jónas um afkomu og helstu áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækja en vegna óróa á alþjóðlegum mörkuðum vegna lausafjárerfiðleika hefur gengi þeirra lækkað einna mest af skráðum félögum á undanförnum mánuðum.
Afkoma íslensku bankanna
Undanfarin misseri hefur afkoma íslensku bankanna verið góð. Á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs var hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi 12-14% og í samanburði við norræna banka af svipaðri stærðargráðu hvað varðar markaðsvirði standa íslensku bankarnir vel.
Eiginfjárstaða
Fjármálaeftirlitið hefur reiknað bæði formlegt álagspróf sem gerir ráð fyrir mjög harkalegu áfalli og viðbótar álagspróf þar sem sérstaklega hafa verið reiknuð áhrif af viðbótar útlánstapi. Eiginfjárstaða bankanna stenst vel álagsprófin og eru niðurstöður þeirra birtar á heimasíðu FME.
Staða bankanna er almennt traust
Jónas fór ítarlega yfir helstu áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækja. Bráðabirgðaathugun FME bendir til að í 70% tilvika sé útlánaáhætta íslensku bankanna lítil eða takmörkuð en í talsverð í 30% tilvika. Eftir óróa á lánsfjármörkuðum sem íslensku bankarnir lentu í árið 2006 hefur lausafjárstaða viðskiptabankanna batnað en þeir gripu þá til viðeigandi ráðstafana og m.a. lengdu í lánum og dreifðu uppsprettu lánsfjár eftir löndum. Þrátt fyrir erfiðleika á fjármálamörkuðum um þessar mundir þá eru undirstöður íslensku viðskiptabankanna almennt traustar og Jónas benti á mikilvægi þess að markaðsaðilar greindu tímabundna erfiðleika frá langtímavanda og héldu ró sinni.