Fjármálaeftirlitið birtir útreikninga á seljanleika hlutabréfa
Fjármálaeftirlitið hefur í samræmi við ákvæði 22. gr. reglugerðar nr. 994/2007, um ákvörðun seljanlegra hlutabréfa, reiknað út flotleiðrétt markaðsvirði (flot) fyrirtækja sem tekin eru til viðskipta á skipulögðum verðbréfamarkaði. Útreikningarnir gilda fyrir tímabilið 1. apríl 2008 til 31. mars 2009.
Flot er skilgreint sem fjöldi hluta í hlutafélagi sem er í boði á markaði hverju sinni. Hlutir í boði eru oftast færri en heildarhlutir í hlutafélagi og félög hafa mismikið flot. Oft er stór hluti hlutafjár í eigu fjárfesta sem líta á hlutabréfin sem langtímafjárfestingu.
Hlutabréf, sem tekið hefur verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, telst seljanlegt ef viðskipti með hlutabréfið eru stunduð daglega, flot er ekki undir 500 milljónum evra og ef annað eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:
a) meðalfjöldi viðskipta með hlutabréfið er ekki undir 500 á dag
b) meðaldagsvelta hlutabréfsins er ekki minni en 2 milljónir evra
Samkvæmt útreikningum Fjármálaeftirlitsins uppfylla eftirtalin félög ofangreind skilyrði:
· Landsbankinn
· Kaupþing
· Glitnir
· Straumur-Burðarás
· Exista
Útreikningsaðferðina má nálgast á heimasíðu Samstarfsnefndar eftirlitsaðila á evrópskum verðbréfamörkuðum (CESR) og þar má einnig finna aðferðarfræði við útreikninga á floti.