Fundir FME um QIS4
Þann 9. júní sl. og 12. júní sl. hélt Fjármálaeftirlitið (FME) sérhæfða fundi vegna QIS4. Fyrri fundurinn var ætlaður skaðatryggingafélögum og sá síðari líftryggingafélögum.
Á fundinum 9. júní fyrir skaðatryggingafélög var fjallað um útreikning vátryggingaskuldar, þ.á m. eftirtalin atriði:
- Greinaskiptingu (en slysa- og sjúkratryggingar hér á landi flokkast undir „Accident and health – other“).
- Notkun á tölfræðilegum aðferðum og upplýsingagjöf um hvaða aðferð er notuð.
- Kröfur vegna útreiknings iðgjaldaskuldar.
- Heimild til að nota „case by case“ aðferð við útreikning tjónaskuldar þegar um er að ræða tjónakröfur með lítilli óvissu.
- Að til væru aðferðir til að nálga iðgjaldaskuld og tjónaskuld en ekki var farið í forsendur þeirra.
Í umfjöllun um útreikning skaðatryggingaáhættu var getið þeirra gagna sem vátryggingafélög þurfa að gefa upp um iðgjöld og tjónshlutfall aftur í tímann fyrir einstakar vátryggingagreinar.
Á fundinum 12. júní fyrir líftryggingafélög var fjallað um útreikning líftryggingaskuldar, þ.á m. eftirtalin atriði:
- Greinaskiptingu, en flestar tegundir líftryggingasamninga hjá innlendum líftryggingafélögum flokkast undir annað hvort söfnunarlíftryggingar (contracts where the policyholder bears the investment risk) eða samninga án ágóðahlutdeildar (other contracts without profit participation clauses).
- Hvaða áhættuþátta taka á tillit til.
Á fundinum kom fram að í hefðbundnum dánaráhættutryggingum ætti ekki að taka tillit til endurnýjunariðgjalda.
Í umfjöllun um útreikning líftryggingaáhættu var eftirfarandi getið:
- Þeir áhættuþættir sem skipta mestu máli eru dánaráhætta (mortality), sjúkdómahætta (disability), kostnaðaráhætta (expense) og stórtjónaáhætta (catastrophe).
- Öll líftryggingafélögin geta notað þær einfaldanir sem boðið er upp á.
- Ef ekki eru notaðar einfaldanir er krafan vegna flestra áhættuþátta reiknuð með áfallaprófi (scenario test).
Næsti fundur um QIS4 er fyrirhugaður 14. júlí nk. kl. 13:30 þar sem umfjöllunarefnið verður skil fyrir samstæður.