Ný og endurbætt útgáfa af skýrsluskilakerfi Fjármálaeftirlitsins
Í ársbyrjun 2007 breytti Fjármálaeftirlitið fyrirkomulagi reglubundinna skýrsluskila þannig að öll reglubundin skýrsluskil eftirlitsskyldra aðila eru nú á rafrænu formi. Þetta var gert m.a. til að tryggja öruggari flutning gagna yfir netið og um leið aðgengilegri og hagkvæmari skýrsluskil. Skýrsluskilakerfið er hluti af metnaðarfullri upplýsingatæknistefnu eftirlitsins. Einn af grunnþáttum í stefnunni var að rafvæða reglubundin skýrsluskil frá eftirlitsskyldum aðilum, en eftirlitið tekur við um 4000 skýrslum á ári. Eftirlitsskyldir aðilar hafa skilað skýrslum í gegnum skýrsluskilakerfið síðastliðið eitt og hálft ár og er komin góð reynsla á kerfið.
Með því að auðvelda eftirlitsskyldum aðilum að uppfylla þá upplýsingaskyldu sem á þeim hvílir, t.d. með því að gera þeim kleift að skila inn skýrslum og gögnum á einfaldan hátt, aukast líkurnar á því að Fjármálaeftirlitinu berist réttar upplýsingar á réttum tíma, en greining á slíkum upplýsingum er eitt af lykilatriðum þess að tryggja traustan fjármálamarkað og skilvirkt eftirlit.
Ný og endurbætt útgáfa af skýrsluskilakerfinu hefur nú verið sett upp á vefinn. Í nýju útgáfunni hefur m.a. verið tekið tillit til ábendinga og athugasemda við það sem betur má fara frá eftirlitsskyldum aðilum. Sem dæmi má nefna að óskað hafði verið eftir því að eftirlitsskyldir aðilar gætu fengið yfirlit yfir skýrslur sem þeir hafa skilað og einnig hvaða skýrslum þeir eiga eftir að skila fyrir tiltekin uppgjörstímabil.
Það er von Fjármálaeftirlitsins að nýja útgáfan af skýrsluskilakerfinu mælist vel fyrir.