Rannsóknir á vegum Fjármálaeftirlitsins
Vegna umræðu sem átt hefur sér stað um möguleg lögbrot í starfsemi fjármálafyrirtækja vill Fjármálaeftirlitið taka eftirfarandi fram varðandi rannsókn mála.
Fjármálaeftirlitið rannsakar nú ákveðna þætti í kjölfar og í aðdraganda þeirra atburða sem átt hafa sér stað á íslenskum fjármálamarkaði undanfarið. Rannsóknir Fjármálaeftirlitsins beinast m.a. að því að skoða hvort brotið hafi verið gegn þeim lögum sem það hefur eftirlit með.
Þannig er verið er að rannsaka viðskipti með hlutabréf, í aðdraganda þess að stóru bankarnir þrír lentu í erfiðleikum. Rannsóknir á viðskiptum með hlutabréf er hluti af eðlilegu ferli og verklagi hjá Fjármálaeftirlitinu sem viðhaft er þegar miklar breytingar verða á markaði.
Einnig er hafin rannsóknarvinna óháðra sérfræðinga sem skilanefndir bankanna þriggja hafa fengið til verksins á grundvelli tilmæla frá Fjármálaeftirlitinu. Um er að ræða umfangsmikla skoðun sem Fjármálaeftirlitið fylgist með. Vinna þessi miðar að því að skoða hvort vikið hafi verið frá innri reglum bankanna, lögum og reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, lögum um verðbréfaviðskipti, almennum hegningarlögum, svo og öðrum réttarheimildum sem varðað geta háttsemi þeirra einstaklinga og lögaðila sem athugunin beinist gegn. Gruni hina óháðu sérfræðinga að um brot á lögum sé að ræða er hlutverk þeirra m.a. að gera Fjármálaeftirlitinu viðvart. Fjármálaeftirlitið mun þá rannsaka málið frekar.
Ef um lögbrot er að ræða getur málinu lokið hjá Fjármálaeftirlitinu t.d. með álagningu stjórnvaldssekta, en ef brot eru meiriháttar vísar eftirlitið málinu til lögreglu. Að auki má nefna að Fjármálaeftirlitið hefur nú þegar gripið til ýmissa annarra úrræða og ráðstafana t.d. stuðlað að varðveislu gagna. Þá hefur Fjármálaeftirlitinu borist ýmsar ábendingar og eru þær skoðaðar sérstaklega.
Rétt er að taka fram að rannsókn af þessu tagi þarf að vanda sérstaklega. Rannsóknir á sviði fjármálaréttar eru flóknar og oft umfangsmiklar og krefjast ítarlegrar gagnaöflunar. Þær taka því oft nokkurn tíma. Verði komist að þeirri niðurstöðu í einstökum málum, að brot hafi átt sér stað, mun verða gripið til viðeigandi aðgerða.
Nánari upplýsingar til fjölmiðla veita Íris Björk Hreinsdóttir, iris@fme.is, S: 525-2700 eða GSM: 869-2733 og Úrsúla Ingvarsdóttir, ursula@fme.is, S: 525-700, GSM: 821-4860.