Fréttir


Stofnefnahagsreikningar nýju bankanna þriggja

11.11.2008

Að gefnu tilefni vill Fjármálaeftirlitið (FME) taka fram að þegar ákveðið var, á grundvelli laga nr. 125/2008, um sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði, að þrír nýir bankar sem ríkissjóður hafði stofnað skyldu taka yfir hluta af eignum, réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf., einkum þeim sem tengjast innlendri starfsemi bankanna, var stjórn hinna nýju banka formlega afhentur stofnefnahagsreikningur til bráðabirgða fyrir hvern þeirra ásamt greinargerð um það hvernig eignir og skuldir hefðu verið klofnar út úr efnahag gömlu bankanna. Allar ákvarðanir FME í þessu sambandi hafa verið birtar eins og áskilið er í lögum.

Starfsemi nýju bankanna þriggja byrjar á grundvelli þessara stofnefnahagsreikninga og bera stjórnir þeirra nú ábyrgð á þeim og upplýsingum um fjárhag þeirra og rekstur eins og gildir um önnur fjármálafyrirtæki.

Ofangreindir stofnefnahagsreikningar bankanna þriggja voru settir upp af alþjóðlegum endurskoðunarfyrirtækjum. Óhjákvæmilega þurfti að hraða þeirri vinnu.  Í framhaldinu hefur reynst nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á reikningunum  til þess að ná samræmi í skiptingu eigna og skulda milli gömlu og nýju bankanna og til þess að laga þá að daglegri starfsemi þeirra í þágu almennings og atvinnulífs. Vegna mikils umróts í efnahagsmálum er óvenjulega vandasamt að meta verðgildi eigna og skulda um þessar mundir.

Samkvæmt ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins um skiptingu eigna og skulda bankanna þriggja hafa nú verið skipaðir viðurkenndir alþjóðlegir matsaðilar til þess að meta sannvirði eigna og skulda bankanna.  Að loknu þessu endurmati verða birtir endanlegir stofnefnahagsreikningar bankanna þriggja.

Stofnefnahagsreikningar fyrir nýju bankana þrjá sem gilda til bráðabirgða verða birtir opinberlega á næstu dögum.

Nánari upplýsingar til fjölmiðla veita Íris Björk Hreinsdóttir, iris@fme.is, S: 525-2700 eða GSM: 869-2733 og Úrsúla Ingvarsdóttir, ursula@fme.is, S: 525-700, GSM: 821-4860.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica