Fundir Fjármálaeftirlitsins með erlendum aðilum
Ýmsir aðilar hafa tjáð sig að undanförnu um samskipti Fjármálaeftirlitsins við erlenda aðila. Því hefur verið slegið fram að Fjármálaeftirlitið hafi verið í hlutverki klappstýru og verndað bankana fyrir erlendri gagnrýni.
Fjármálaeftirlitið leitast við að gefa bestu fáanlegar upplýsingar um starfsemi sína og íslenskan fjármálaþjónustumarkað og hefur byggt upplýsingagjöf sína til erlendra aðila á tölulegum staðreyndum hverju sinni sem og gildandi lögum.
Bankarnir stækkuðu hlutfallslega mest á árunum 2004-2005, meðal annars vegna kaupa á erlendum dótturfélögum. Í samræmi við aukna erlenda starfsemi íslensku bankanna fór áhugi ýmissa erlendra aðila á Íslandi að aukast verulega árið 2006. Beiðnum um upplýsingar og fundi fjölgaði umtalsvert og lagði Fjármálaeftirlitið áherslu á að sinna þessum beiðnum af fagmennsku. Um var að ræða greiningaraðila, lánshæfismatsfyrirtæki, fjölmiðla og fjármálafyrirtæki. Fundir þessir voru að frumkvæði hinna erlendu aðila. Um var að ræða aðila sem komu til Íslands m.a. til þess að kynna sér aðstæður og hitta ýmsa aðila s.s. aðrar stofnanir, ráðuneyti og aðila á fjármálamarkaði.
Fjármálaeftirlitið lagði sig fram við að sinna upplýsingabeiðnum og veita þær upplýsingar sem hægt var innan ramma laga og var lögð áhersla á að setja fram staðreyndir. Á fundunum var m.a. farið yfir þær áskoranir sem Fjármálaeftirlitið taldi að fjármálamarkaðurinn og fjármálafyrirtæki stæðu frammi fyrir, svo sem fjármögnun og þröngt eignarhald.
Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, S: 525-2700 og GSM: 840-3861 eða Íris Björk Hreinsdóttir, iris@fme.is eða S: 525-2700.