Fjármálaeftirlitið hefur framkvæmt mat á hæfi 66 framkvæmdastjóra
Fjármálaeftirlitið hóf framkvæmd svonefnds hæfismats á framkvæmdastjórum fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða í lok árs 2005, en slíkt mat hefur verið framkvæmt á vátryggingasviði frá árinu 1999. Þannig hafa 66 framkvæmdastjórar farið í gegnum hæfismat hjá Fjármálaeftirlitinu.
Í lögum eru gerðar ríkar kröfur til hæfis framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja, vátryggingarfélaga og lífeyrissjóða. Þessir aðilar skulu m.a. hafa yfir að búa viðeigandi þekkingu og starfsreynslu sem sé með þeim hætti að tryggt sé talið að þeir geti gegnt stöðu sinni á viðhlítandi hátt.
Hæfismat á framkvæmdastjórum felst m.a. í athugun á þekkingu þeirra á þeim lagaramma sem fyrirtækin starfa eftir en jafnframt er kannað hvort þeir uppfylli önnur skilyrði viðkomandi löggjafar. Ef Fjármálaeftirlitið telur að viðkomandi aðili hafi ekki sýnt fram á fullnægjandi þekkingu á viðfangsefninu er honum gefinn kostur á að matið sé endurtekið. Ekki er gert ráð fyrir fleiri en tveimur tilraunum.
Ekki eru veittar undanþágur frá framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra, nema í þeim tilvikum að viðkomandi aðili hafi á síðastliðnum 12 mánuðum gegnt starfi framkvæmdastjóra hjá öðru félagi sem hefur sambærilegar starfsheimildir og það sem hann hyggst taka til starfa hjá.
Taflan hér að neðan sýnir fjölda hæfismata og skiptingu.
Af töflunni má sjá að 77% þeirra sem farið hafa í gegnum hæfismat hjá Fjármálaeftirlitinu hafa staðist. Af þeim voru 15 aðilar sem náðu ekki í fyrstu tilraun en mættu í endurtekið hæfismat. Níu þeirra 15 stóðust hæfismatið í annarri tilraun.
Fjármálaeftirlitið taldi ástæðu til þess að taka hæfi sex aðila til sérstakrar skoðunar á tímabilinu, í tengslum við viðvarandi eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila og hæfi stjórnenda.
Reynslan af framkvæmd matsins hefur verið góð og almennt hafa þeir framkvæmdastjórar sem farið hafa í gegnum matið, látið í ljós ánægju sína með það. Þá hefur hæfismatið vakið athygli erlendra aðila sem telja það vott um góða eftirlitsframkvæmd eins og m.a. hefur komið fram í skýrslum lánshæfismatsfyrirtækja.
Við framangreindar upplýsingar má bæta að bankastjórar nýju bankanna þriggja hafa að auki farið í gegnum mat á hæfi í byrjun janúar 2009 og stóðust þeir matið.
Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að þeir starfsmenn sem sinna stjórnunarstöðum og hafa umsjón með daglegri starfsemi fjármálafyrirtækis búi yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að gegna stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Í tengslum við mat á hæfi bankastjóranna þriggja hefur Fjármálaeftirlitið beint til þeirra tilmælum um að taka upp sambærilegt mat á hæfi annarra stjórnenda í því fyrirtæki sem þeir stýra.
Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, S: 525-2700 eða GSM: 840-3861 og Íris Björk Hreinsdóttir, iris@fme.is eða S: 525-2700