Túlkun Fjármálaeftirlitsins á tilkynningar- og birtingarskyldu vegna veðkalla í fjármálagerningum
Fjármálaeftirlitið hefur gefið út túlkun á tilkynningar- og birtingarskyldu 126. og 127. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, vegna veðkalla í fjármálagerningum. Túlkunin hefur verið birt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins undir Lög og reglur - Túlkanir - Verðbréfamarkaður, sjá hér.
Tilefni túlkunarinnar er aukinn fjöldi veðkalla í fjármálagerningum í eigu innherja, stjórnenda eða aðila fjárhagslega tengdum þeim á sl. mánuðum, en borið hefur á því að útgefendur telji að ekki þurfi að sinna tilkynningar- og birtingarskyldu 126. og 127. gr. laga um verðbréfaviðskipti þegar um slík viðskipti er að ræða, þ.e. þvinguð viðskipti.
Fjármálaeftirlitið vill því með túlkun sinni vekja sérstaka athygli á því að framangreind skylda hvílir á aðilum óháð því hver aðdragandi viðskiptanna er enda geta slíkar upplýsingar haft verðmótandi áhrif á viðkomandi fjármálagerninga útgefandans auk þess sem þær nýtast í eftirlitsskyni. Gerir orðalag nefndra lagaákvæða ekki greinarmun á því hver aðdragandi viðskiptanna er, þ.e. hvort um er að ræða þvinguð viðskipti að frumkvæði veðhafa eða viðskipti að frumkvæði innherja, stjórnanda eða aðila fjárhagslega tengdum þeim en hvergi er í lögunum að finna undanþágu frá nefndum skyldum þessara aðila þegar um slík viðskipti er að ræða.
Fjármálaeftirlitið bendir einnig á þann möguleika að geta þess í athugasemdum með tilkynningu um viðskipti að um þvingaða sölu/veðkall hafi verið að ræða en slíkt gæti verið til þess fallið að markaðurinn fái sem skýrasta mynd af viðskiptunum og þar með skýrari upplýsingar til grundvallar fjárfestingarákvörðunum sínum.