Fréttir


Um hlutverk Fjármálaeftirlitsins og verkaskiptingu þess og annarra embætta.

4.3.2009

Nokkurs misskilnings virðist hafa gætt í umræðunni frá því að bankarnir þrír féllu um hlutverk Fjármálaeftirlitsins. Með þessum línum leitast höfundur við að útskýra þetta hlutverk og verkaskiptingu milli Fjármálaeftirlitsins og annarra embætta.

Hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við þau lög og reglur sem því er falið að hafa eftirlit með auk þess að fylgjast með því að starfsemi þessara aðila sé í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Eftirlitsskyldir aðilar á fjármálamarkaði eru m.a. bankar, sparisjóðir, vátryggingafélög, verðbréfafyrirtæki, rekstrarfélög verðbréfasjóða og lífeyrissjóðir.

Eins og áður hefur komið fram í grein höfundar í Morgunblaðinu þann 31. janúar sl. um rannsóknir Fjármálaeftirlitsins eru mörg atriði þar til skoðunar. Verið er að kanna hvort um sé að ræða brot á lögum eða reglum og hvort vísa eigi málum til sérstaks saksóknara eða annarra embætta. Hluti þeirra mála sem eru til skoðunar er flókinn og getur rannsókn þeirra tekið lengri tíma vegna gagnaöflunar og yfirferðar gagna. Ef niðurstaða í málum sem eru til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu teljast lögbrot getur stjórn þess ákveðið að ljúka þeim með álagningu stjórnvaldssektar en meiriháttar brotum ber Fjármálaeftirlitinu að vísa til lögreglu.

Til að skýra betur verkaskiptingu Fjármálaeftirlitsins og annarra embætta þarf að fara örlítið aftur í tímann. Í apríl 2007 tóku gildi lög um viðurlög við efnahagsbrotum. Þar er vikið að verkaskiptingu Fjármálaeftirlitsins og lögreglu og kveðið sérstaklega á um að brot gegn lögum á fjármálamarkaði sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins til lögreglu. Ákvæðið var sett til þess að koma í veg fyrir að mál væru rannsökuð á sama tíma hjá eftirlitsstjórnvaldi og lögreglu og til að spilla ekki rannsóknarhagsmunum. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað, en það er skilyrði að gögnin tengist brotum sem geta varðað refsiábyrgð. Fjármálaeftirlitinu er ekki heimilt að veita upplýsingar ef þær tengjast ekki rannsókn á sakamálum.  Fjármálaeftirlitinu er einnig heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem bæði geta varðað stjórnvaldssektum og refsingu. Þá er að finna gagnkvæma heimild, þ.e. að lögreglu er heimilt að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar og lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins. Að lokum má geta þess að ákæranda er heimilt að endursenda mál til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar í þeim tilvikum þar sem ekki eru talin efni til málshöfðunar og ætluð refsiverð háttsemi varðar jafnframt stjórnsýsluviðurlögum.

Embætti sérstaks saksóknara var sett á fót með sérlögum og tók sérstakur saksóknari til starfa þann 1. febrúar sl. Embættinu er ætlað að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við þá atburði er leiddu til setningar neyðarlaganna svonefndu í október sl. og eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með útgáfu ákæru og saksókn. Í athugasemdum með frumvarpinu er undirstrikað að embættið sé viðbót við stofnanir ákæruvaldsins og mun því ekki hrófla við verkaskiptingu milli ákæruvalds og lögreglu annars vegar og annarra eftirlitsstofnana hins vegar, svo sem Fjármálaeftirlits. Þetta var ennfremur ítrekað í nefndaráliti allsherjarnefndar sem fjallaði um frumvarpið á fundi sínum eftir fyrstu umræðu á Alþingi.

Embættið leysir af hólmi efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, sem undir eðlilegum kringumstæðum fer með rannsókn sakamála á fjármálamarkaði. Var ætlunin sú að tryggja að þau mál sem tengjast bankahruninu verði rannsökuð á markvissan hátt, og að þeir sem fara með rannsókn slíkra mála geti einbeitt sér að þeim, þar sem efnahagsbrotadeildin hefur þegar næg önnur verkefni.

Í stuttu máli má segja að embætti sérstaks saksóknara komi í stað lögreglu í framangreindum tilvikum. Þannig eiga mál eingöngu að sæta rannsókn embættisins að undangenginni kæru frá Fjármálaeftirlitinu og heimilt er að vinna saman í einstökum málum. Sérstakur saksóknari getur óskað eftir upplýsingum um stöðu annarra mála en þeirra sem kærð hafa verið til embættisins svo hann geti komið fyrr að málum sem til athugunar eru hjá eftirlitsstofnunum. Með þessu er ætlunin að auk traust á starfi hins sérstaka saksóknara, svo og hinna opinberu eftirlitsstofnana, og að stuðla að vandaðri undirbúningi opinberrar málsmeðferðar.

Eftir Guðrúnu Jónsdóttur, sviðsstjóra á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 4. mars 2009.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica