Fjármálaeftirlitið grípur inn í rekstur Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka hf.
Fjármálaeftirlitið hefur á grundvelli laga nr. 125/2008, sem sett voru í október síðastliðnum vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o. fl., gripið inn í rekstur Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. Fjármálaeftirlitið hefur skipað skilanefnd sem tekur við öllum heimildum stjórnar Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka hf.
Fram hafði komið í samskiptum Straums-Burðaráss og Fjármálaeftirlitsins að Straumur-Burðarás hefði ekki handbært fé til að standa skil á skuldbindingum sínum. Jafnframt hafði komið fram að það væri mat Straums að það væri ekki raunhæfur kostur að afla þess fjár sem nauðsynlegt væri til að tryggja áframhaldandi starfsemi. Vegna þessarar alvarlegu stöðu taldi Fjármálaeftirlitið nauðsynlegt að grípa til framangreindra aðgerða.
Eins og ríkisstjórnin hefur lýst yfir eru innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi tryggðar að fullu.
Eftirfarandi aðilar hafa verið skipaðir í skilanefnd:
Reynir Vignir, formaður, löggiltur endurskoðandi
Kristinn Freyr Kristinsson, löggiltur endurskoðandi
Arna Guðrún Tryggvadóttir, löggiltur endurskoðandi
Elín Árnadóttir, lögfræðingur (HDL)
Ragnar Þórður Jónasson, lögfræðingur (HDL)
Ákvörðunina er hægt að lesa hér.