Fréttir


Athugasemd vegna ummæla Marel Food Systems hf.

10.3.2009

Í ljósi umfjöllunar Marel Food Systems hf. í fjölmiðlum í gær vegna stjórnvaldssektarákvörðunar Fjármálaeftirlitsins á hendur félaginu þann 4. desember sl., telur Fjármálaeftirlitið nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram.

Marel Food Systems hf. hefur haldið því fram í fjölmiðlum að félagið hafi aldrei litið svo á að það hafi hafnað sáttarboði Fjármálaeftirlitsins vegna máls þessa.  Með hliðsjón af þessum ummælum vill Fjármálaeftirlitið benda á að í stöðluðu orðalagi sáttarboðs þess sem barst Marel Food Systems hf. kemur skýrt fram að verði greiðsla vegna sáttaboðsins ekki innt af hendi á umsömdum gjalddaga teljist sáttin ekki samþykkt.  Þar sem félagið greiddi ekki umrædda fjárhæð innan þess frests sem veittur var hafi því ekki verið hægt að líta öðruvísi á málið en að félagið hafi hafnað sáttarboðinu. 

Einnig hefur Marel Food Systems hf. haldið því fram í fjölmiðlum að félaginu hafi komið verulega á óvart þegar stjórn Fjármálaeftirlitsins tók fyrrnefnda ákvörðun þann 4. desember sl. um að beita félagið stjórnvaldssekt en það hafi talið að viðræður um málið væru enn í gangi.  Vegna þessa skal tekið fram að í síðasta bréfi Fjármálaeftirlitsins til félagsins vegna máls þessa, áður en tekin var ákvörðun um lyktir þess, var skýrt tekið fram að fyrir lægi að taka ákvörðun í málinu.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica