Helstu niðurstöður skýrslu um reglur og framkvæmd á eftirliti með bönkunum
Finnski bankasérfræðingurinn, Kaarlo Jännäri, hefur skilað skýrslu um reglur og framkvæmd á eftirliti með fjármálafyrirtækjum (hjá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu), en skýrslan er hluti af samkomulagi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Skýrslunni var einkum ætlað að skoða umgjörð lausafjárreglna, stórar áhættuskuldbindingar, viðskipti við tengda aðila, krosseignarhald og hæfi eigenda og stjórnenda fjármálafyrirtækja. Hér fyrir neðan er samantekt á helstu þáttum skýrslunnar sem tengjast Fjármálaeftirlitinu sérstaklega.
Lausafjáreftirlit
Varðandi eftirlit með lausafé, sem fellur undir Seðlabankann, segir að eftir á að hyggja hefðu lausafjárreglur mátt vera harðari og afnám bindiskyldu á innlánum í erlendum útibúum hafi verið misráðin. Fram kemur að eftirlit með lausafé hafi verið aukið og komið á sameiginlegum vinnuhópi Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Hins vegar hefðu þessir aðilar mátt auka eftirlitið fyrr og æskilegt hefði verið að staðreyna upplýsingar frá bönkunum með vettvangsskoðun, en slíkt var fyrirhugað í október sl.
Stórar áhættuskuldbindingar
Hvað varðar eftirlit með stórum áhættuskuldbindingum kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi unnið mikið að því máli síðan 2006 og sífelld togstreita hafi verið á milli þess og bankanna (t.d. um tengingar aðila og gæði upplýsinga), en bankarnir hafi lofað að bæta vinnulag sitt. Tekið er fram að Fjármálaeftirlitið hafi skort lagaheimildir til að taka matskenndar íþyngjandi ákvarðanir og þörf sé á strangari reglum um þetta efni en Íslandi sé það heimilt samkvæmt tilskipunum ESB.
Viðskipti tengdra aðila
Varðandi eftirlit með viðskiptum banka við tengda aðila segir að erfitt hafi verið fyrir Fjármálaeftirlitið að sanna öll tengsl vegna flókins eignarhalds. Reglur og framkvæmd hafi hins vegar verið í samræmi við alþjóðlega staðla og jafnvel gengið lengra með þeirri kröfu að fjármálafyrirtækin skiluðu sérstakri skýrslu endurskoðanda um mat á viðskiptum við tengda aðila til Fjármálaeftirlitsins.
Krosseignarhald
Um krosseignarhald segir að eftirlit Fjármálaeftirlitsins með bönkunum hafi leitt til þess að krosseignarhald á milli bankanna sjálfra hafi verið mjög takmarkað. Fjármálaeftirlitið hafi einnig beitt sér sérstaklega fyrir afnámi á krosseignarhaldi á milli Kaupþings og Exista árið 2006. Hins vegar hafi reglur og eftirlit með lánum banka með veði í eigin bréfum eða bréfum annarra fyrirtækja átt að vera strangara. Í litlu samfélagi eins og því íslenska sé erfitt að forðast krosseignatengsl nema með umfangsmikilli reglu- og eftirlitsumgjörð. Samkeppnisyfirvöld eigi við sömu vandamál að stríða og mælt er með auknu samstarfi á milli þessara eftirlitsstofnana.
Hæfi stjórnenda og stjórnar fjármálafyrirtækja
Niðurstaðan um reglur og framkvæmd á hæfismati stjórnenda banka er sú að þær séu viðamiklar og strangari en í mörgum löndum. Jafnframt sé hæfismat á stjórnum banka í góðu lagi.
Eftirlit með virkum eignarhlutum
Varðandi eftirlit með virkum eignarhlutum segir að Fjármálaeftirlitið hafi lagt mikið í kröfur vegna þessa og skilyrði fyrir veitingu samþykkis hafi verið í samræmi við ESB reglur. Hendur Fjármálaeftirlitsins í þessum málaflokki hafi verið bundnar af fordæmum sem sett voru við einkavæðingu ríkisbankanna. Fjármálaeftirlitið hafi þó í nokkrum tilvikum neitað um samþykki (m.a. í Glitni) og beitt aðila sektum eða fellt niður atkvæðisrétt fyrir vanrækslu á því að sækja um heimild fyrir virkum eignarhlut. Mikilvægt sé að eftirlitsaðilar neiti aðilum um virka eignarhluti ef samþykki myndi hindra virkt eftirlit með fyrirtækinu og sé svigrúm til matskenndra ákvarðana þröngt þurfi að breyta því.
Lokaorð og leiðbeiningar
Í lokaorðum skýrslunnar segir að í markaðssamfélagi séu stjórnendur og eigendur banka ábyrgir fyrir stefnumörkun og rekstri þeirra. Eftirlitsaðilar geti ekki tryggt að bankar verði aldrei gjaldþrota. Þeirra hlutverk sé að gæta þess að bankar fari eftir lögum og reglum sem sett eru af Alþingi og ríkisstjórn. Til þess þurfi eftirlitsaðilar viðeigandi valdheimildir, fjármagn og stuðning. Fjármálakrísan, bæði alþjóðlega og á Íslandi, virðist benda til þess að lög og reglur, stuðningur, valdheimildir og fjármagn eftirlitsaðila á Íslandi sem og annars staðar, hafi ekki verið nægjanlegt.
Í lok skýrslunnar eru settar fram átta meginleiðbeiningar um umgjörð í starfsemi eftirlitsaðila.
Fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins um skýrsluna og skýrsluna sjálfa er hægt að nálgast á slóðinni: http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/3582
Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, s. 525-2700 eða gsm: 840-3861.