Niðurstöður verðmats nýju bankanna
Deloitte LLP hefur lokið bráðabirgðaverðmati þeirra eigna sem fluttar voru út úr gömlu bönkunum til að mynda efnahag Nýja Kaupþings banka, NBI og Íslandsbanka. Samhliða vinnslu verðmatsins hefur Oliver Wyman yfirfarið framkvæmd þess fyrir hvern banka. Fyrirtækin vinna nú að lokafrágangi matsins. Þess er vænst að fullnaðarútgáfa þess liggi fyrir í næstu viku.
Um skýrslurnar
Skýrslurnar skiptast í tvo hluta. Í fyrri hluta er lýst aðferðafræði og forsendum og birtar niðurstöður sem lúta að því að verðmæti eignanna sem fluttar voru úr bönkunum liggi á tilteknu verðbili. Í síðari hluta er að finna mat á einstökum eignum. Þessi hluti hefur að geyma viðkvæmar upplýsingar og er bundinn ríkum trúnaði.
Kynningaráætlun
Nauðsynlegt er að upplýsingar um verðmat séu fyrst birtar samningsaðilum og þeim gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra og kynna sér þær ítarlega. Þegar samningar hafa náðst verður samantekt á efni skýrslnanna gerð opinber. Í skýrslunum er meðal annars að finna viðkvæmar og verðmyndandi upplýsingar og því er ekki unnt að birta þær opinberlega að svo stöddu.
Þegar fullnaðarniðurstaða verðmatsins liggur fyrir er áætlað að það verði gert með eftirfarandi hætti:
- Fyrri hluti hverrar skýrslu verður fyrst afhentur viðkomandi nýjum banka og mótaðila hans, sem er skilanefnd gamla bankans, ásamt ráðgjöfum þessara aðila.
- Í framhaldi af því geta einstakir kröfuhafar snúið sér til skilanefnda ef þeir óska upplýsinga.
- Næsta skref verður að ráðgjöfum gömlu bankanna, sem eru fulltrúar kröfuhafa ,verður gefinn kostur á að kynna sér efni síðari hluta skýrslnanna við aðstæður þar sem fyllsta öryggis er gætt og taka afstöðu til matsins í einstökum atriðum.
- Nokkru síðar verður haldinn umræðufundur um tæknilega hlið matsins með þátttöku samningsaðila og ráðgjafa þeirra. Áætlað er að fundurinn verði haldinn í lok aprílmánaðar.
- Að síðustu verður haldinn fundur sem opinn er breiðari hópi kröfuhafa og verður þar gefinn kostur á umræðum og athugasemdum.
Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, s. 525-2700 eða gsm: 840-3861.