Fréttir


Samanlagður hagnaður innlendu líftryggingafélaganna um 1,5 milljarður á árinu 2008

4.5.2009

Hagnaður innlendu líftryggingafélaganna eftir skatt var tæplega 1,5 milljarður kr. árið 2008 samanborið við rúmlega 1,3 milljarða kr. árið 2007.

Rekstur líftryggingafélaga skiptist í líftryggingastarfsemi og fjármálastarfsemi. Örlítið minni hagnaður var af líftryggingastarfsemi árið 2008 en árið áður, 1,3 ma.kr. samanborið við 1,4 ma.kr. Tekjur af fjármálastarfsemi tífölduðust hins vegar á milli ára, voru rúmlega 300 m.kr., samanborið við 30 m.kr. árið áður. Mikil breyting varð á eignasamsetningu félaganna á árinu, eign í verðbréfum með breytilegum tekjum (hlutabréfum og verðbréfasjóðum) lækkaði um 51% og eign í skuldabréfum lækkaði um 33%. Eignir í sjóðum og bankainnstæðum jukust hins vegar úr 500 m.kr. í 2,7 ma.kr. sem skýrir auknar tekjur af fjármálastarfsemi.

Eignir líftryggingafélaganna lækkuðu um 11,4% á milli ára. Þær voru í árslok 2008 um 12,2 ma.kr., samanborið við 13,8 ma.kr. í árslok 2007. Eigið fé líftryggingafélaganna nam 4,7 ma.kr. og lækkaði á árinu um 7,5%. Fjárfestingar vegna söfnunarlíftrygginga (líftrygginga með fjárfestingaráhættu líftryggingataka) drógust saman um 21,3% á árinu, að öllum líkindum bæði vegna rýrnunar eigna og innlausnar samninga.

Öll líftryggingafélögin eru dótturfélög annarra fyrirtækja. Tvö eru dótturfélög skaðatryggingafélaga, tvö eru dótturfélög banka og eitt er dótturfélag eignarhaldsfélags.

Nánari upplýsingar um ársreikninga líftryggingafélaga má sjá í meðfylgjandi töflu.

Fjármálaeftirlitið mun á næstu dögum birta upplýsingar um afkomu einstakra greina vátrygginga og yfirlit yfir ársreikninga skaðatryggingafélaga.

Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is , s. 525 2700 eða gsm 840 3861.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica