Aukinn frestur til að ljúka frágangi á skilmálum fjármálagerninganna
Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að taka upp fyrri ákvarðanir sínar, um ráðstafanir eigna og skulda gömlu bankanna til nýju bankanna, að því marki sem þær snúa að tímafresti til að ljúka frágangi á skilmálum fjármálagerningsins sem nýju bankarnir gefa út til gömlu bankanna til greiðslu endurgjaldsins. Fjármálaeftirlitið telur þörf á frekari tímafresti þar sem endanleg tímaáætlun liggur ekki fyrir milli hlutaðeigandi aðila um frágang á skilmálunum. Fjármálaeftirlitið telur ekki óeðlilegt að vandlega sé farið yfir skilmála fjármálagerningsins enda mikilvægt að vel takist til. Ekki liggur þó fyrir hversu langur umræddur frestur þarf að vera, en ákvörðun um það verður tekin eigi síðar en 15. júní 2009.
Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson,
sgv@fme.is, s: 525-2700 eða gsm 840-3861.