Tilkynning um fyrirhugaða yfirfærslu vátryggingastofns Sjóvár-Almennra trygginga hf. kt. 701288-1739 til SA trygginga hf. (nýtt og óskráð félag)
Fjármálaeftirlitið vekur athygli á auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu 9. júlí sl. vegna fyrirhugaðrar yfirfærslu vátryggingastofns Sjóvár-Almennra trygginga hf. til SA trygginga hf., nýs félags sem taka mun við vátryggingarekstri Sjóvár-Almennra trygginga. Texti auglýsingarinnar er svohljóðandi:
Sjóvá Almennar tryggingar hf. (kt. 701288-1739) og SA tryggingar hf. (óskráð félag) hafa sent Fjármálaeftirlitinu umsókn um leyfi til yfirfærslu vátryggingastofns Sjóvár Almennra trygginga hf. Hluthafar SA tryggingar hf. eru eftirtaldir:
1. Glitnir banki hf. (kt. 550500-3530) 17,67%
2. Íslandsbanki hf. (kt. 490108-0160) 9,30%
3. SAT eignarhaldsfélag hf. (kt. 450500-3720) 73,03%
Vátryggingafélagið Sjóvá Almennar tryggingar hf. hefur í hyggju að hætta vátryggingastarfsemi og flytja vátryggingastofna sína yfir til nýs vátryggingafélags sem mun bera heitið SA tryggingar hf. Nafni vátryggingafélagsins (nú Sjóvá Almennar tryggingar hf.) verður við yfirfærsluna breytt í SJAL Fasteignir hf. Fjármálaeftirlitið vinnur við athugun á umsókn hins nýja vátryggingafélags.
Með vísan til 86. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, með síðari breytingum, tilkynnist hér með fyrirhuguð yfirfærsla á vátryggingastofni Sjóvár Almennra trygginga hf. til hins nýstofnaða vátryggingafélags. Fyrirhugað er að yfirfærsla vátryggingastofna miðist við 1. júní 2009.
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. munu fá nýtt nafn sem fyrr segir og hætta vátryggingastarfsemi að fengnu starfsleyfi hins nýja vátryggingafélags.
Með vísan til 4. mgr. 86. gr. nefndra laga munu réttindi og skyldur vátryggingataka, vátryggðra og annarra samkvæmt vátryggingasamningum halda sjálfkrafa gildi sínu við flutninginn. Vátryggingatakar munu geta sagt upp vátryggingasamningum sínum við félagið frá þeim degi er flutningur stofnsins á sér stað tilkynni þeir uppsögn skriflega innan mánaðar frá flutningsdegi.
Áður en Fjármálaeftirlitið tekur afstöðu til máls þessa og með vísan til 2. mgr. 86. gr. nefndra laga óskar Fjármálaeftirlitið eftir skriflegum athugasemdum vátryggingataka og vátryggðra við fyrirhuguðum ráðstöfunum innan eins mánaðar frá birtingu þessarar tilkynningar. Fjármálaeftirlitið veitir fyllri upplýsingar ef óskað er.