Fréttir


Fjármálaeftirlitið og Ríkisskattstjóri gera samstarfssamning

10.11.2009

Fjármálaeftirlitið og Ríkisskattstjóri hafa ákveðið að auka með sér samstarf sem beinist að því að efla samvinnu eftir því sem lagaheimildir standa til og hafa gert með sér samstarfssamning þar að lútandi. Í samningnum felst að Ríkisskattstjóri og Fjármálaeftirlitið munu leggja sig fram við að koma á virkum upplýsingaskiptum sín í milli og skuldbinda sig til að miðla upplýsingum um það sem þau komast að í sýslan sinni og talið er að falli undir starfsvettvang viðkomandi stofnunar þó í samræmi við takmarkanir í lögum um aðgang að gögnum og upplýsingum. Samkvæmt samningnum mun Fjármálaeftirlitið fá aðgang að vissum skrám Ríkisskattstjóra. 

Upplýsingar sem hvor samningsaðili veitir hinum eru háðar þagnarskyldu lögum samkvæmt og skulu þær einungis nýttar í starfsemi samningsaðila. Skipaður verður  tengiliður hjá hvorum samningsaðila og munu þeir skiptast á upplýsingum í kjölfar reglulegra samráðsfunda sem haldnir verða.

Í samstarfssamningnum felst enn fremur að Ríkisskattstjóri og Fjármálaeftirlitið munu stuðla að aukinni þekkingu starfsmanna hvorrar stofnunar á eðli og störfum hinnar og halda í því skyni gagnkvæma fræðslufundi fyrir starfsmenn.

Samstarfssamningurinn undirritaður. Frá vinstri: Sigurveig Guðmundsdóttir, Gunnar Þ. Andersen, Skúli Eggert Þórðarson og Guðrún J. Jónsdóttir.
Mynd frá því er samstarfssamningurinn var undirritaður. Frá vinstri: Sigurveig Guðmundsdóttir, hagfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri og Guðrún J. Jónsdóttir, lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica