Fréttir


Fjármálaeftirlitið og Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar á Blönduósi gera samstarfssamning

10.12.2009

Frett.10.12.2009.IMG_4068Fjármálaeftirlitið og Sýslumaðurinn á Blönduósi, fyrir hönd Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar (IMST), hafa gert með sér samstarfssamning um sektarinnheimtu. Í samningnum felst að IMST tekur að sér innheimtu á dagsektum og févíti sem Fjármálaeftirlitið beitir, stjórnvaldssektum sem Fjármálaeftirlitið leggur á einstaklinga og lögaðila og sáttarboðum og sáttargerðum sem Fjármálaeftirlitinu er heimilt að gera. Jafnframt er gert ráð fyrir IMST taki að sér innheimtu eftirlitsgjalds samkvæmt lögum nr. 99/1999, sem leggst á eftirlitsskylda aðila.

Með samningnum er stefnt að því að ná að samræma, einfalda og efla innheimtuna svo og að ná fram auknu hagræði og sparnaði í rekstri við slíka innheimtu gjalda til ríkissjóðs.

Þeir Bjarni G. Stefánsson, sýslumaður á Blönduósi og Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, undirrituðu samstarfssamninginn þann 8. desember sl. og lýstu þeir báðir yfir ánægju með  hann og vænta mikils af samstarfinu. 

IMST hefur frá vordögum 2006 sinnt innheimtu sekta og sakarkostnaðar á landsvísu sem IMST tók við af 26 sýslumanns- og lögreglustjóraembættum með góðum árangri og hefur jafnframt bætt við nokkrum nýjum verkefnum.

Embætti sýslumannsins á Blönduósi sinnir jafnframt innheimtu opinberra gjalda til ríkissjóðs í Húnaþingi.  Álögð opinber gjöld til innheimtu á árinu 2008 að viðbættum verkefnum IMST námu samtals um kr. 5,0  milljörðum auk eftirstöðva í ársbyrjun og hafa kr. 4.3 milljarðar komið til greiðslu á því ári eða afgreiðst á annan hátt t.d. með breytingum og afskriftum.


Þeir Bjarni G. Stefánsson, sýslumaður á Blönduósi og Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, takast í hendur eftir undirritun samningsins.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, sími: 525-2700 og farsími: 840-3861

Til baka Prenta





Þetta vefsvæði byggir á Eplica