Fjármálaeftirlitið veitir ISB Holding ehf. leyfi til að fara með virkan eignarhlut í Íslandsbanka
Fjármálaeftirlitið hefur veitt ISB Holding ehf. leyfi til að fara með virkan eignarhlut í Íslandsbanka fyrir hönd Glitnis banka hf. Leyfið er veitt í kjölfar samnings Glitnis og íslenska fjármálaráðuneytisins, hinn 13. september síðastliðinn, þess efnis að Glitnir gæti eignast 95% hlut í Íslandsbanka að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Afstaða Fjármálaeftirlitsins til þess hvort Glitnir, sem er í greiðslustöðvun og slitameðferð, væri hæfur til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki var neikvæð. Fjármálaeftirlitið tók þó fram að vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem leiddu til samkomulagsins, og vegna þess að það felur í sér sátt á milli aðilanna um rekstur Íslandsbanka sem ætla má að stuðli að stöðugleika á fjármálamarkaði, kæmi til álita að kanna hvort umsækjandi gæti gripið til ráðstafana sem dygðu til að takmarka óæskileg áhrif eignarhaldsins, sbr. 43. gr. l. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Niðurstaðan var sú að veita leyfið með skilyrðum um afgerandi ráðstafanir er lúta að fjárhagslegum styrk umsækjanda, eignarhaldi bankans, eftirlitshagsmunum og stefnumiðum eigenda.
Fjárhagslegur styrkur umsækjanda skal tryggður með aðgangi að sérstökum viðbragðssjóði sem grípa má til ef Íslandsbanki mætir verulegu andstreymi í rekstri. Var fjárhæð sjóðsins metin af Íslandsbanka að undirlagi Fjármálaeftirlitsins á grundvelli samræmdrar aðferðafræði sem þróuð var innan ramma úttektar Fjármáleftirlitsins á nýju bönkunum í maí 2009.
Eignarhald bankans skal vera í höndum sérstaks dótturfélags Glitnis (ISB Holding), sem lýtur stjórn sem er að meirihluta skipuð stjórnarmönnum óháðum Glitni, stórum kröfuhöfum og Íslandsbanka sjálfum. Er skilanefnd Glitnis gefinn kostur á að tilnefna einn fulltrúa sinn í þriggja manna stjórn ISB Holding, en hinir tveir, þ.m.t. stjórnarformaður, skulu vera óháðir. Útnefning allra stjórnarmanna eignarhaldsfélagsins er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og skulu þeir uppfylla kröfur þess, m.a. um þekkingu og reynslu af fjármálastarfsemi.
Stjórn ISB Holding fer með atkvæðisrétt þann sem Glitnir öðlast í Íslandsbanka og útnefnir stjórnarmenn bankans. Kveða skilyrði Fjármálaeftirlitsins einnig á um það að af stjórnarmönnum bankans sjálfs skuli skilanefnd aðeins hafa einn fulltrúa, en aðrir skuli vera óháðir, þ.m.t. stjórnarformaður. Með því er átt við að þeir starfi hvorki í umboði einstakra eigenda eða kröfuhafa, né séu bundnir þeim eða bankanum sjálfum nokkrum hagsmunatengslum. Í sérstökum umboðssamningi milli ISB Holding og Glitnis tekst Glitnir á hendur að virða sjálfstæði stjórnar fyrrnefnda félagsins og skyldur hennar til að stuðla að heilbrigðum og traustum rekstri Íslandsbanka án utanaðkomandi íhlutunar. Er stjórn ISB Holding gert skylt að gefa skýrslu um framkvæmd þessarar stefnu til Fjármálaeftirlitsins ársfjórðungslega.
Til að greiða fyrir eftirliti er Glitni gert að færa eignarhald á öllum dótturfélögum sem hafa með höndum fjármála- og vátryggingarstarfsemi í eitt móðurfélag. Þessu hlutverki gegnir 100% dótturfélag Glitnis, Glitnir eignarhaldsfélag ,sem því er um leið móðurfélag ISB Holding.
Stefnumiðum eigenda eru settar skorður með því að áskilja tilteknar kvaðir á viðskipti við tengda aðila, arðgreiðslur út úr Íslandsbanka og sölu hluta í Íslandsbanka næstu þrjú ár. Glitni ber þannig að tilkynna fyrirfram um fyrirhuguð eigendaskipti hluta í Íslandsbanka eða ISB Holding til Fjármálaeftirlitsins. Þegar slík tilkynning berst mun fara fram endurnýjað hæfismat á væntanlegum eigendum af hálfu Fjármálaeftirlitsins, svo fremi eignarhaldið feli í sér áhrif á stjórn bankans.
Áður hafði Fjármálaeftirlitið kynnt fyrir nýju bönkunum þremur eftirlitskröfur sínar. Þær byggjast á gagngerri úttekt á rekstrarhæfni þeirra miðað við eignasamsetningu, fjármögnun og líklegar efnahagshorfur, sem gerð var í maí sl. Fela kröfurnar m.a. í sér 16% eiginfjárlágmark í stað 8% áður, viðbúnað til að standast nýtt álagspróf sem miðast við óhagstæða efnahagsþróun um lengri tíma en almennt er vænst og strangari kröfur til lausafjárstyrks en verið hefur. Auk þess er það gert að skilyrði fyrir starfsleyfi nýju bankanna að þeir hrindi í framkvæmd ítarlegri áætlun um endurbætur á áhættustýringu og stjórnarháttum.
Nánari upplýsingar veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, sími: 525-2700 og farsími: 840-3861