Fréttir


Lilja Ólafsdóttir formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins

1.3.2010

Lilja Ólafsdóttir héraðsdómslögmaður hefur verið skipuð formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins af efnahags- og viðskiptaráðherra í stað Dr. Gunnars Haraldssonar hagfræðings sem hefur hafið störf hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) í París.

Lilja er starfandi lögmaður í Reykjavík og hefur m.a. starfað sem lögfræðilegur ráðgjafi stjórnar Fjármálaeftirlitsins frá því í júní 2009. Lilja hefur starfað sem yfirlögfræðingur hjá EFTA í Genf og sem ráðgjafi og samningamaður í alþjóðaviðskiptum. Hún var varafastafulltrúi Íslands við alþjóðastofnanirnar í Genf og samningamaður Íslands um laga og stofnanamál við gerð EES samningsins.

Í upphafi starfsferils síns starfaði Lilja sem dómarafulltrúi og síðar sem lögmaður, en hún lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1982 og hlotnaðist LLM gráða frá Yale háskóla í Bandaríkjunum 1983.

Fjármálaeftirlitið hefur átt góð samskipti við Lilju sem lögmann og væntir mikils af samstarfi við hana.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, sími: 525-2700 og farsími: 840-3861.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica