Ný fjármálafyrirtæki taka við rekstri Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík
Stjórnir Byrs - sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík hafa farið fram á að Fjármálaeftirlitið taki yfir starfsemi sparisjóðanna í kjölfar þess að samningaviðræðum við kröfuhafa þeirra lauk án árangurs. Í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda sparisjóðanna kemur fram að innlán Byrs - sparisjóðs og eignir hafa verið fluttar til nýs viðskiptabanka, Byrs hf. og innlán Sparisjóðsins í Keflavík og eignir hafa verið fluttar til nýs sparisjóðs, Spkef sparisjóðs. Bæði fjármálafyrirtækin hafa verið stofnuð og eru að fullu í eigu ríkisins.
Fjármálaeftirlitið hefur skipað bæði Byr - sparisjóði og Sparisjóðnum í Keflavík bráðabirgðastjórn.
Í bráðabirgðastjórn Byrs - sparisjóðs eru:
· Eva Bryndís Helgadóttir, hrl., formaður
· Ágúst Kristinsson, löggiltur endurskoðandi
· Árni Ármann Árnason, hrl.
Í bráðabirgðastjórn Sparisjóðsins í Keflavík eru:
· Soffía Eydís Björgvinsdóttir,hdl., formaður
· Auður Ósk Þórisdóttir, löggiltur endurskoðandi
· Elvar Örn Unnsteinsson, hrl.
Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins varðandi Byr - sparisjóð er hér. Ákvörðun varðandi Sparisjóðinn í Keflavík er hér.
Í fréttatilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu er áréttað að í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi tryggðar að fullu.
Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, S: 525-2700 og farsími: 8403861.