Fréttir


Fjármálaeftirlitið fær aðild að Alþjóðasambandi verðbréfaeftirlita

11.6.2010

Aðildarumsókn Fjármálaeftirlitsins að Alþjóðasambandi verðbréfaeftirlita (IOSCO) var samþykkt hinn 9. júní síðastliðinn. Með aðildinni getur Fjármálaeftirlitið skipst á upplýsingum um verðbréfaviðskipti við flestar þjóðir heims innan ramma gildandi laga.

IOSCO nýtur viðurkenningar sem leiðandi alþjóðlegur vettvangur verðbréfaeftirlita. Aðildarfélagar annast eftirlit með meira en 95% verðbréfamarkaða innan 114 lögsagnarumdæma í heiminum. Samtökin hafa því mikil áhrif hvað varðar þróun verðbréfaeftirlits um allan heim.

Til þess að uppfylla skilyrði um aðild þarf umsækjandi að staðfesta að hann styður „Markmið og viðmið við verðbréfaeftirlit“ sem IOSCO leggur til grundvallar starfsemi sinni. Einnig þurfa aðilar að hafa heimild frá  umdæmi sínu til að fylla þann flokk sem undirritar viðauka A við „Marghliða viljayfirlýsingu varðandi samráð og samvinnu og gagnkvæma upplýsingamiðlun“ sem gefinn er út af IOSCO. Almenn aðild er opin verðbréfaeftirlitum eða hliðstæðum stjórnvöldum eða lögskipuðum eftirlitseiningum sem bera höfuðábyrgð á verðbréfaeftirliti innan sinna lögsagnarumdæma.

Markmið IOSCO eru að eiga samvinnu um að:

• Styðja öflugt eftirlit til þess að viðhalda sanngjörnum, skilvirkum og heilbrigðum markaði. 
• Skiptast á upplýsingum og reynslu í því skyni að styðja við þróun í hverju landi.
• Sameina krafta aðila til að skapa viðmið varðandi alþjóðleg verðbréfaviðskipti og virkt   eftirlit með þeim.
• Styðja heilbrigði markaða með strangri beitingu þessara viðmiða og með því að bregðast af hörku við lögbrotum.

Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, s: 525-2700 eða gsm 840-3861.
Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica