Fjármálaeftirlitið athugar skilmála ábyrgðartrygginga í atvinnurekstri
Nýverið athugaði Fjármálaeftirlitið skilmála ábyrgðartrygginga í atvinnurekstri og skoðaði sérstaklega í því samhengi hvernig reynsla vátryggingafélaga hefur verið af ákvæðum í slíkum skilmálum sem takmarka ábyrgð vegna tjóns á munum í vörslu vátryggðs.Af þeim tölulegu upplýsingum sem Fjármálaeftirlitinu bárust um tjónareynslu skaðatryggingafélaga var ráðið að ekki væri þörf á sérstökum athugasemdum eftirlitsins við skilmála ábyrgðartrygginga í atvinnurekstri að því er varðar nefnd ábyrgðartakmörkunarákvæði. Algengt er að kaup á viðbótarvátryggingu sem ekki hefur að geyma slík ábyrgðartakmörkunarákvæði standi vátryggðum til boða og hafði sú staðreynd áhrif á mat Fjármálaeftirlitsins.
Hins vegar taldi Fjármálaeftirlitið, að fengnum nánari sjónarmiðum skaðatryggingafélaga, að ábyrgðartakmörkun vegna tjóns á munum í vörslu vátryggðs teldist til verulegrar takmörkunar á gildissviði vátryggingarinnar og þeirri vernd er hún veitir í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Var það enn fremur afstaða Fjármálaeftirlitsins að slík túlkun nefndrar 1. mgr. 4. gr. laga um vátryggingarsamninga væri í bestu samræmi við góða viðskiptahætti og venjur á vátryggingamarkaði, sbr. 6. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi.
Af framangreindum ástæðum hefur Fjármálaeftirlitið farið fram á að í vátryggingarskírteinum vegna ábyrgðartrygginga í atvinnurekstri sé athygli vátryggðra sérstaklega vakin á nefndri ábyrgðartakmörkun.