Fjármálaeftirlitið gefur út leiðbeinandi tilmæli um hæfi lykilstarfsmanna
Fjármálaeftirlitið hefur gefið út leiðbeinandi tilmæli um hæfi lykilstarfsmanna fyrirtækja á fjármálamarkaði sem er beint til allra eftirlitsskyldra aðila. Í tilmælunum er bent á að í nýjum lögum um fjármálafyrirtæki eru nýmæli er varða lykilstarfsmenn fjármálafyrirtækja, einkum varðandi viðskipti fyrirtækjanna við þá svo sem lánveitingar, starfslokasamninga og önnur kjör. Engin ákvæði hafa þó verið lögfest er varða hæfi lykilstarfsmanna en Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að með svipuðum hætti sé gætt að hæfi þeirra og að hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fyrirtækja á fjármálamarkaði.
Samkvæmt tilmælunum ber fjármálafyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum á fjármálamarkaði að setja sér reglur um hæfi lykilstjórnenda sem verða birtar á heimasíðu þeirra. Þá telur Fjármálaeftirlitið það vera í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti að ávallt liggi fyrir hjá eftirlitsskyldum aðilum skrá yfir hverjir teljist til lykilstarfsmanna fyrirtækis, hvaða stöðu þeir gegna og hvers vegna þeir teljist til lykilstarfsmanna. Í því felst jafnframt að fyrir liggi innra mat framkvæmdastjóra og stjórnar á hæfi þeirra einstaklinga sem gegna lykilstörfum.
Fjármálaeftirlitið mun fara yfir og veita endurgjöf á reglur sem eftirlitsskyldir aðilar setja sér í samræmi við tilmælin. Einnig mun Fjármálaeftirliti reglulega kanna skrá yfir lykilstarfsmenn, stöðu sem þeir gegna og hvernig reglum sem settar verða í samræmi við tilmælin er beitt. Þá mun Fjármálaeftirlitið krefjast skilvirkra aðgerða til úrbóta af hálfu eftirlitsskyldra aðila þegar við á.
Tilmælin í heild sinni má sjá hér.