Fréttir


Stjórn FME hefur lokið athugun á hæfi Gunnars Þ. Andersen forstjóra og sér ekki tilefni til að aðhafast frekar

5.11.2010

Að beiðni stjórnar Fjármálaeftirlitsins gerði Andri Árnason hrl.  sérstaka athugun á hæfi Gunnars Þ. Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, með hliðsjón af umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um viðskipti Landsbanka Íslands hf. og félagsins LB Holding Ltd. með hlutabréf Kaupþings banka hf. á árinu 2001, og í tilefni af upplýsingum um viðskipti Landsbankans og félagsins NBI Holding Ltd. með hlutabréf í [V] á árinu 2001. Magnús G. Benediktsson, löggiltur endurskoðandi, vann einnig að athuguninni.

Andri hefur nú skilað athuguninni til stjórnar og fjallaði hún um niðurstöður hennar á fundi sínum í dag. Í ljósi niðurstöðu athugunarinnar tók stjórnin ákvörðun um að ekki væri tilefni til að aðhafast frekar í málinu.

Niðurstöðurnar eru eftirfarandi:

A. Landsbanki Íslands hf. stofnaði til eignarhaldsfélaga (LB Holding Ltd. og NBI Holdings Ltd.) með það að markmiði að fara með eignarhald Landsbankans á tilteknum verðmætum. Félögin voru í eigu sjálfseignarsjóðs (trust) á Guernsey, þar sem Landsbanki Íslands var hagsmunaaðili („beneficiary“).

B. Fyrir liggur að félagið NBI Holdings Ltd. fór með eignarhald á hlutabréfum í Kaupþingi, sem Kaupþing bar ákveðna fjárhagslega áhættu af á grundvelli afleiðusamnings (skiptasamnings) við Landsbankann og vegna lánssamninga vegna kaupanna sem Kaupþing yfirtók. Umræddir samningar um hlutabréf í Kaupþingi, voru gerðir við NBI Holdings Ltd.  Fyrirtækið LB Holding Ltd., sem vísað er til í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, kemur ekki við sögu í umræddum viðskiptum. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að [GÞA] hafi verið sendar athugasemdir [starfsmanns] Landsbankans, dags. 29. apríl 2001, eða athugasemdir sama hinn 11. maí  2001, þar sem hann lýsti áhyggjum af því með hvaða hætti eftirlitsaðili, þ.e. Fjármálaeftirlitið, myndi líta á umrædda gerninga m.t.t. stöðu LB Holding Ltd.

C. Ekki er unnt að fullyrða með hvaða hætti stjórnvöld / dómstólar hér á landi hefðu metið, í lagalegu tilliti, eignarhald sem byggðist á réttarstöðu „beneficiary“ gagnvart sjálfseignarsjóði (trust) og ugglaust nokkur lagaleg óvissa því tengd.  Á hinn bóginn má ætla að stjórnvöld hefðu talið að um raunverulegt eignarhald væri að ræða, með tilliti til þess að áhætta af viðkomandi fjármálagerningum hefði eftir sem áður legið hjá viðkomandi fjármálastofnunum, sbr. og ályktun rannsóknarnefndar Alþingis þar að lútandi. Þó telst óvíst með hvaða hætti dómstólar hefðu túlkað viðkomandi lagaákvæði um eigið fé o.fl. að þessu leyti, þ.e. að því er varðar framangreint fyrirkomulag hjá sjálfseignarsjóðum. Af þessu leiðir að ætla má að nokkur réttaróvissa hafi ríkt að því er þetta varðar.

D. Af fyrirliggjandi gögnum málsins má ráða að [GÞA] hafi sem stjórnarmaður NBI Holdings Ltd. vitað eða mátt vita að Landsbankinn var stofnandi umrædds sjálfseignarsjóðs og talinn „beneficiary“. Þá má einnig ráða af gögnum málsins að [GÞA] hafi vitað um tilgang stofnunar félaganna, þ.e. að fara með eignarhald Landsbankans á tilteknum eignum. Fékk [GÞA] m.a. í hendur drög að skipuriti vegna hlutabréfa í Kaupþingi sem gáfu til kynna að áhætta af viðkomandi hlutabréfum ætti að liggja hjá Kaupþingi. Þá liggur fyrir að [GÞA] undirritaði skjöl f.h. NBI Holdings Ltd. í tengslum við kaup Landsbankans á hlutum í [V], en fyrir liggur félagið var skráð fyrir hlutum í [V] á ákveðnu tímabili, sem Landsbankinn keypti á grundvelli samkomulags við tiltekna hluthafa í [V].  Ekki verður hins vegar ráðið að [GÞA] hafi komið að undirbúningi þessara mála sérstaklega. Þá verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að [GÞA] hafi komið að gerð ársreikninga þeirra félaga sem um ræðir (Landsbankinn / Kaupþing) eða að umfjöllun um afmörkun á eigin fé bankanna af þessu tilefni, ef því var að skipta.

E. Þau atvik sem tekin hafa verið hér til skoðunar áttu sér stað á árunum 2001-2002. Með tilliti til refsiramma viðeigandi lagaákvæða svo og með tilliti til fyrningarfresta vegna brota á umræddum lögum, yrðu hugsanleg brot tengd framangreindum viðskiptum ljóslega að teljast fyrnd. Af því leiðir að ekki getur komið til sakamálarannsóknar vegna þeirra nú, m.a. með vísan til þess að ekki skal að lögum taka til rannsóknar sakir sem fyrirsjáanlega verður ekki refsað fyrir.

F. Talið er að [GÞA] sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins njóti réttar sem embættismaður í skilningi laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ekki er talið að framangreind atvik geti að lögum leitt til brottvikningar [GÞA] úr starfi.  Þá verður ekki séð að við eigi að veita honum áminningu af framangreindum ástæðum.
 
G. Ekki er dregið í efa að stofnun aflandsfélaga var lögleg sem slík og reyndar alþekkt í alþjóðlegum viðskiptum. Þá verður einnig að telja óyggjandi að [GÞA] hafi ekki komið að gerð ársreiknings Landsbankans eða atriðum sem vörðuðu afmörkun á eigin fé bankans. Af þessu má draga þá ályktum að ef komið hefði til rannsóknar Fjármálaeftirlitsins á umræddum tíma hefði rannsóknin væntanlega ekki lotið að umræddum aflandsfélögum sem slíkum, heldur að því hvort meðferð á eigin fé viðkomandi íslenskra fjármálafyrirtækja, með tilliti til gerninganna, hafi samræmst íslenskum lögum. Af þessum ástæðum tel ég ekki tilefni til viðbragða stjórnar Fjármálaeftirlitsins vegna aðkomu [GÞA] að viðskiptasamningum vegna hluta í Kaupþingi og í [V] á árinu 2001.  

H. Ekki er talin sérstök ástæða til að draga í efa hæfi [GÞA] nú til að gegna skyldum sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins, meðal annars til að leggja mat á hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Við það mat á hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja almennt, sem Fjármálaeftirlitið fer með á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki, þ.e. hvort viðkomandi „haf[i] sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að [hann] misnoti aðstöðu sína eða skaði fyrirtækið“, ber fyrst og fremst að líta til þess hvort viðkomandi hafi gerst sekur um lögbrot eða alvarlega ámælisverða háttsemi, hvort viðkomandi sæti rannsókn opinberra aðila vegna starfa fyrir fjármálafyrirtæki eða vegna sambærilegra starfa eða hvort viðkomandi hafi með beinum hætti tengst málum, sem sæta slíkri rannsókn, eða ef fyrirsjáanlegt er að starfsemi sem viðkomandi bar stjórnunarlega ábyrgð á, eða tengdist með afdráttarlausum hætti, og loks hvort tilefni hafi verið til að víkja viðkomandi úr starfi af slíkum ástæðum, þegar slíkt tilvik kom til athugunar. Ekki verður séð að framangreindar meginviðmiðanir geti átt við þær aðstæður sem hér hefur verið lýst og varða störf [GÞA] fyrir Landsbankann á árinu 2001. 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica