Fréttir


Yfirlýsing vegna frétta um sölu Sjóvár-Almennra trygginga hf.

22.11.2010

Vegna frétta í fjölmiðlum um sölu á vátryggingafélaginu Sjóvá-Almennar tryggingar hf. vill Fjármálaeftirlitið koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Umsókn frá umræddum fjárfestahópi, um heimild til að fara með virkan eignarhlut í Sjóvá-Almennum tryggingum hf., barst Fjármálaeftirlitinu 4. ágúst sl. Fjárfestahópurinn hafði í hyggju að kaupa 33% af heildarhlutafé félagsins og öðlast ennfremur forkaupsrétt að allt að helmingi hlutafjár til viðbótar. Fjármálaeftirlitið hefur, frá því að umsóknin barst, átt ítarleg samskipti við umsækjendur og aflað frekari gagna og skýringa. Fjármálaeftirlitið hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort umræddum fjárfestahóp verði veitt heimild til að fara með virkan eignarhlut í vátryggingafélaginu. Þann 19. nóvember sl. barst Fjármálaeftirlitinu beiðni frá umsækjandanum um að frestað yrði frekari afgreiðslu umsóknarinnar þar sem óvissa ríkti um sölu félagsins.

Athygli er vakin á því að samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi nr. 56/2010 þurfa virkir eigendur að uppfylla ýmis skilyrði, til að vera metnir hæfir til eiga og fara með virkan eignarhlut í vátryggingafélagi. Þau skilyrði lúta m.a. að því að eigendur hafi yfir að ráða fjárhagslegum styrk með tilliti til þess reksturs sem vátryggingafélagið hefur með höndum og að orðspor þeirra sé ekki með þeim hætti að það rýri traust félagsins. 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica