Fréttir


EIOPA gefur út niðurstöður fimmtu áhrifskönnunarinnar vegna Solvency II (QIS5)

15.3.2011

Eftirlitsstofnun Evrópu á vátryggingasviði (European Insurance and Occupational Pensions Authority, EIOPA) hefur birt niðurstöður QIS5 (Quantative Impact Study), sem er fimmta könnunin á væntanlegum áhrifum Solvency II regluverksins á vátryggingamarkaði sem taka mun gildi á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) 1. janúar 2013.

QIS5 er viðamesta könnunin sem gerð hefur verið til þessa en nærri 70% vátryggingafélaga á EES tóku þátt. Hér á landi tóku öll vátryggingafélög sem falla munu undir Solvency II þátt í könnuninni.

Í Solvency II verða tvenns konar kröfur til gjaldþols. Ef lágmarksgjaldþol (Minimum Capital Requirement, MCR) er ekki uppfyllt, er starfsleyfi vátryggingafélags sem ekki getur rétt við fjárhag sinn á skömmum tíma afturkallað. Ef gjaldþolskrafa (Solvency Capital Requirement, SCR) er ekki uppfyllt mun Fjármálaeftirlitið grípa til þeirra ráðstafana sem við eiga í hverju tilviki en vátryggingafélög geta rétt við stöðu sína innan viðeigandi frests sem að jafnaði er þrjú ár.

Samkvæmt QIS5 eru vátryggingafélög hér á landi almennt vel undirbúin fjárhagslega til að standast kröfur Solvency II. Samtals eiga félögin um 15 ma.kr. umfram SCR og 33 ma.kr. umfram MCR. Staðan gagnvart MCR er sambærileg stöðunni gagnvart núverandi gjaldþolskröfum. Hafa ber í huga að staðan er mismunandi á milli einstakra félaga.

Annað markmið með QIS5 var að hvetja vátryggingafélög og eftirlitsstjórnvöld til undirbúnings fyrir gildistöku Solvency II. Í því skyni var óskað eftir viðhorfum félaganna til könnunarinnar og þannig var hægt að greina hvar helst væri þörf á ítarlegri leiðbeiningum og úrbótum. Sem dæmi um málefni sem vakin var athygli á hér á landi var flokkun heilsutrygginga, útreikningur hamfaraáhættu og útreikningur mótaðilaáhættu.

QIS5 gaf einnig til kynna að vátryggingafélög þurfa að huga í tæka tíð að kröfum vegna stjórnunarhátta, áhættustýringar og upplýsingagjafar, t.d. með úrbótum á upplýsingakerfum og þjálfun starfsfólks. Fjármálaeftirlitið á í samskiptum við vátryggingafélögin vegna þessa.

Fjármálaeftirlitið telur að könnunin hafi tekist vel hér á landi. Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að vátryggingafélögin ljúki undirbúningi fyrir Solvency II á næsta ári. Í tengslum við undirbúning þessa hefur Fjármálaeftirlitið hafið kynningarfundi með stjórnum vátryggingafélaga sem hafa það að markmiði að upplýsa um fyrirkomulag Solvency II og hvaða skyldur hið breytta fyrirkomulag hefur í för með sér.

Fréttatilkynningu EIOPA og skýrslu stofnunarinnar má sjá á meðfylgjandi slóð: https://www.eiopa.europa.eu/newsroom/news-press_en

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica