Breytingar varðandi MP banka hf.
Samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir yfirfærslu rekstrarhluta skv. 106. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtækiFjármálaeftirlitið samþykkti þann 11. apríl 2011 yfirfærslu á tilgreindum rekstrarhluta EA fjárfestingarfélags hf., (áður MP banki hf.) kt. 540599-2469, til MP banka hf. (áður nb.is-sparisjóður hf.)
Starfsleyfi sem viðskiptabanki
Fjármálaeftirlitið veitti þann 11. apríl 2011 MP banka hf. (áður nb.is-sparisjóður hf.), kt. 540502-2930, Ármúla 13a, 108 Reykjavík, starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Frá sama tíma fellur niður starfsleyfi félagsins sem sparisjóður.
Starfsleyfi MP banka hf., kt. 540502-2930 tekur til móttöku endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi skv. 1. tl., útlána skv. 2. tl., útgáfu og umsýslu greiðslukorta skv. 4. tl., útgáfu og umsýslu rafeyris skv. 5. tl. og viðskipta og þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti sem felst í móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga skv. tölulið 6 a, framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina skv. tölulið 6 b, eignastýringu skv. tölulið 6 c, fjárfestingarráðgjöf skv. tölulið 6 d, sölutryggingu í tengslum við útgáfu fjármálagerninga og/eða útboð fjármálagerninga skv. tölulið 6 e og umsjónar með útboði fjármálagerninga án sölutryggingar og töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði skv. tölulið 6 f í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
Virkur eignarhlutur Títans fjárfestingafélags ehf.
Þann 11. apríl 2011 komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að Títan fjárfestingafélag ehf., kt. 470109-0760, Suðurlandsbraut 18, 108 Reykjavík, sé hæft til að fara með virkan eignarhlut allt að 20% í MP banka hf. (áður nb.is-sparisjóður), sbr. VI. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.