Afkoma vátryggingafélaga á árinu 2010
Afkoma vátryggingafélaga á árinu 2010
Rekstur skaðatryggingafélaga
Samanlagður hagnaður skaðatryggingafélaga á árinu 2010 var um 4,1 ma.kr. Þar af hagnaðist Viðlagatrygging sem er ríkisstofnun sem starfar samkvæmt sérlögum og býr við sveiflukennda starfsemi, um rúma 2,1 ma.kr. Sé horft framhjá Viðlagatryggingu er hagnaður skaðatryggingafélaga rétt um 2 ma.kr. Hagnaður af vátryggingastarfsemi var 2,6 ma.kr. en hins vegar var tap af fjármálastarfsemi sem nam tæpum 600 m.kr. Helsta ástæða þess taps eru gjöld vegna matsbreytinga á fjárfestingum sem samanlagt námu tæpum 2 ma.kr. á árinu.
Á árinu 2009 hætti Sjóvá Almennar tryggingar hf. vátryggingarekstri og var vátryggingastofn þess færður í nýtt félag með nafninu Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Á síðasta ári var einungis birtur ársreikningur fyrir nýja félagið í yfirlitstölum Fjármálaeftirlitsins, þ.e. frá 1. október 2009. Hafa ber það í huga þegar bornar eru saman tölur úr rekstrarreikningi og sjóðstreymi á milli ára.
Eignir skaðatryggingafélaganna námu rúmlega 124 ma.kr. í árslok 2010, samanborið við tæplega 118 ma.kr. árið áður og hækkuðu um 5,7%.
Eigið fé skaðatryggingafélaganna hækkaði einnig, eða um 8,5% og er nú samanlagt rúmlega 52 ma.kr., eða 35 ma.kr. án Viðlagatryggingar. Staða eigin fjár er misjöfn á milli félaga. Á síðasta ári tóku gildi ný lög nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi, þar sem kröfur um lágmarksgjaldþol voru hækkaðar verulega í samræmi við þær fjárhæðir í evrum sem gilda samkvæmt Evróputilskipunum, en í eldri lögum hafði lágmarksfjárhæð í krónum verið óbreytt frá árinu 2003. Lágmarksgjaldþol skaðatryggingafélaga má nú aldrei vera lægra en 3,2 milljónir evra sem svarar nú til 496 m.kr. European Risk Insurance Company hf. vinnur nú að áætlun um hvernig þessar nýju kröfur skulu uppfylltar. Þar sem Íslensk endurtrygging hf. og Trygging hf. hafa hætt gerð nýrra vátryggingasamninga eru þau undanþegin nýju kröfunum samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um vátryggingastarfsemi.
Ekkert skaðatryggingafélag greiddi arð á síðasta ári.
Rekstur líftryggingafélaga
Eins og árið áður voru öll líftryggingafélögin rekin með hagnaði á árinu 2010. Samanlagður hagnaður þeirra dróst þó saman um 14,3% og var 1,4 ma.kr. samanborið við tæplega 1,7 ma.kr. hagnað árið áður.
Samanlagðar eignir líftryggingafélaganna voru 14,3 ma.kr. í árslok 2010, sem er 6,1% aukning frá árslokum 2009. Eigið fé líftryggingafélaganna var 6,0 ma.kr. sem er 12,8% hækkun frá árinu áður. Eins og hjá skaðatryggingafélögum má lágmarksgjaldþol líftryggingafélaga aldrei vera lægra en 496 m.kr. Vörður líftryggingar hf. vinna að áætlun um að uppfylla áðurnefndar kröfur um lágmarksgjaldþol.
Þrjú stærstu líftryggingafélögin greiddu arð á árinu 2010, samanlagt 1,2 ma.kr. Á árinu áður námu arðgreiðslur tveggja líftryggingafélaga 800 m.kr.
Rekstur einstakra vátryggingagreina
Við samanburð á afkomu einstakra vátryggingagreina á síðasta ári við árið áður, styðst Fjármálaeftirlitið við upplýsingar um rekstur vátryggingastarfsemi gamla félags Sjóvár-Almennra trygginga hf., nú SJ Eignarhaldsfélag hf. Þannig fæst raunhæfur samanburður á afkomu vátryggingagreina á milli ára.
Bókfærð iðgjöld í skaðatryggingastarfsemi námu rúmlega 43 ma.kr. sem er 3,0% hækkun frá síðasta ári. Töluverð lækkun varð á tjónakostnaði, bókfærð tjón námu tæpum 30 ma.kr. en voru tæplega 35 ma.kr. á árinu 2009. Töluvert meira var hins vegar lagt til hliðar í tjónaskuld eða 2,5 ma.kr., samanborið við 400 m.kr. árið áður. Rekstrarkostnaður í skaðatryggingastarfsemi hækkaði um 11,2% og var 8,5 ma.kr. á síðasta ári. Verulega dró úr fjárfestingartekjum af skaðatryggingarekstri sem voru 3,2 ma.kr. á síðasta ári, samanborið við 5,2 ma.kr. á árinu 2009.
Hagnaður af rekstri ökutækjatrygginga í heild, það er lögboðinna og frjálsra, var 1,2 ma.kr., sem er 30,2% lækkun á milli ára. Litlar breytingar eru á iðgjöldum og tjónakostnaði á milli ára en meginástæða lægri hagnaðar er að fjárfestingartekjur af vátryggingaskuld námu 1,7 ma.kr. samanborið við 2,9 ma.kr. árið áður. Í frjálsum ökutækjatryggingum jókst hagnaður úr 232 m.kr í 909 m.kr., þar sem meginástæðan er lækkandi tjónakostnaður.
Af öðrum greinum má nefna að tapi var snúið í hagnað í sjótryggingum og flugtryggingum en í greiðslu- og efndavátryggingum var tap eftir hagnað árið áður. Rekstur ábyrgðartrygginga hefur reynst vátryggingafélögum erfiður á undanförnum árum en verulega dró úr tapinu sem nam 153 m.kr. samanborið við 279 m.kr. árið áður. Önnur grein sem hefur verið erfið í rekstri á undanförnum árum er slysa- og sjúkratryggingar en hagnaður var af þeirri grein annað árið í röð og hækkaði um 52% á milli ára. Einnig jókst hagnaður í eignatryggingum (31% ef horft er framhjá Viðlagatryggingu) og í farmtryggingum (117%).
Einungis eitt félag, Vátryggingafélag Íslands hf., tók að sér nýja áhættu vegna endurtrygginga á síðasta ári. Nokkur önnur félög vinna að uppgjöri eldri samninga. Samanlagt tap af endurtryggingastarfsemi á síðasta ári var rúmlega 100 m.kr. sem er svipuð afkoma og árið áður.
Bókfærð iðgjöld í líftryggingum námu 3,8 ma.kr, sem er 3,4% hækkun frá síðasta ári. Líftryggingabætur ársins 2009 námu rúmlega 1 ma.kr. sem er 14,4% lækkun frá síðasta ári.
Nánari upplýsingar um ársreikninga vátryggingafélaga og sundurliðun vátryggingagreina má sjá á meðfylgjandi slóð.
Nánari upplýsingar veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, S: 520-3700 og farsími: 840 3861.