Fréttir


Nýjar reglur um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja

2.3.2017

Þann 8. febrúar sl. samþykkti stjórn Fjármálaeftirlitsins nýjar reglum um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Reglur nr. 150/2017 voru birtar í Stjórnartíðindum þann 23. febrúar sl. Við gildistöku þeirra féllu úr gildi reglur nr. 887/2012 um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja.

Með lögum nr. 57/2015 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki var gerð breyting á hæfisskilyrðum stjórnar og framkvæmdarstjóra sem og skilyrðum um önnur störf stjórnarmanna, sbr. 52. gr. og 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið tók í kjölfarið reglur nr. 887/2012 um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna til endurskoðunar með tilliti til nefndra breytinga og þeirrar reynslu sem komin var á þær.

Með lagabreytingunni var m.a. fellt niður skilyrðið um að stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri þurfi að hafa háskólapróf sem nýtist í starfi. Gerð er áfram krafa um þekkingu og reynslu viðkomandi eða að þeir hafi lokið námi sem nýtist í starfi.  Þá er sérstaklega tilgreint að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skuli hafa þekkingu á áhættuþáttum í starfsemi fjármálafyrirtækis.

Hæfisskilyrði um gott orðspor kemur í stað hæfisskilyrðis um óflekkað mannorð og að stjórnarmaður hafi ekki sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni hans. Í tengslum við mat á framangreindu er vakin athygli á grein um hæfismat stjórnarmanna og framkvæmdastjóra sem birtist í Fjármálum, vefriti Fjármálaeftirlitsins í apríl 2015.

Hinar nýju reglur taka mið af þeim lagabreytingum sem hér um ræðir, reynslu Fjármálaeftirlitsins af beitingu eldri reglna, þróun og fyrirmyndum frá Evrópu sem og þeim athugasemdum sem fram komu í umsagnarferli. 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica