Fréttir


Nýjar reglur um kaupaukakerfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki

23.5.2016

Þann 13. apríl sl. samþykkti stjórn Fjármálaeftirlitsins nýjar reglur um kaupaukakerfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Reglur nr. 388/2016 voru birtar í Stjórnartíðindum þann 12. maí sl.. Við gildistöku þeirra féllu úr gildi reglur nr. 700/2011 um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja. Hinar nýju reglur má nálgast hér.

Með lögum nr. 57/2015 voru gerðar breytingar á 57. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sem fjallar um kaupaukakerfi. Fjármálaeftirlitið tók í kjölfarið reglur nr. 700/2011 um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja til endurskoðunar með tilliti til nefndra breytinga og þeirrar reynslu sem komin var á þær.

Með lagabreytingunum var m.a. kveðið á um að samtala veitts kaupauka til starfsmanns, að meðtöldum þeim hluta greiðslu sem fresta skal skv. reglum Fjármálaeftirlitsins, mætti á ársgrundvelli ekki nema hærri fjárhæð en 25% af árslaunum viðkomandi án kaupauka. Þá var nýjum málsgreinum bætt við 57. gr. a laganna sem m.a. fólu í sér að óheimilt væri að veita stjórnarmönnum og starfsmönnum sem starfa við áhættustýringu, innri endurskoðun eða regluvörslu kaupauka.  Jafnframt var skerpt á heimild Fjármálaeftirlitsins til reglusetningarinnar um efnið og talið upp í ákvæðinu hvað skyldi vera meðal efnis þeirra. Þannig kemur nú fram í síðari málsl. 4. mgr. 57. gr. a laganna að í reglunum skuli m.a. kveðið á um „skilgreiningu kaupauka, markmið kaupaukakerfis, árangurs- og áhættumat, innra eftirlit, jafnvægi á milli fastra launa og kaupauka, frestun kaupauka, ráðningarkaupauka, lækkun, afturköllun eða endurgreiðslu kaupauka, og upplýsingagjöf og gagnsæi.“Þessu til viðbótar var með nefndum breytingarlögum gerð breyting á 1. mgr. 109. gr. á þann veg að ákvæði 57. gr. a tæki einnig til eignarhaldsfélaga á fjármálasviði.

Hinar nýju reglur taka mið af þeim lagabreytingum sem hér um ræðir, reynslu Fjármálaeftirlitsins af beitingu eldri reglna, þróun og fyrirmyndum frá Evrópu sem og þeim athugasemdum sem fram komu í umsagnarferli.

Helstu efnislegu breytingar frá eldri reglum eru eftirfarandi:

  1. Gildissvið reglnanna mun einnig ná til eignarhaldsfélaga á fjármálasviði, sbr. 1. mgr. 1. gr.
  2. Skírskotað er til krafna um laust fé í tengslum við kaupaukakerfi, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 3. tölul. 1. mgr. 14. gr.
  3. Kveðið er sérstaklega á um að áður en kaupaukakerfi er sett skuli álit starfskjaranefndar og áhættunefndar liggja fyrir enda sé slíkum nefndum til að dreifa, sbr. 2. mgr. 5. gr.
  4. Kveðið er sérstaklega á um að starfslok starfsmanns breyti engu um útgreiðslu frestaðs kaupauka, sbr. 3. mgr. 7. gr.
  5. Sérstaklega er kveðið á um kjör á frestuðum kaupaukaskuldbindingum, sbr. 4. mgr. 7. gr.
  6. Kveðið er sérstaklega á um að árangursviðmið sem liggja ákvörðun um kaupauka til grundvallar skuli sett fyrir fram, sbr. 9. gr.
  7. Ráðningarkaupauki lækkar úr 60% af árslaunum án kaupauka í 25% í samræmi við hámarkið sem kveðið er á um í lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. 3. mgr. 10. gr.
  8. Kveðið er sérstaklega á um að starfsmanni fyrirtækis sé óheimilt að fá greiddan kaupauka fyrir tilstilli þriðja aðila, sbr. 3. mgr. 11. gr.
  9. Fram kemur að stjórn fyrirtækis sinni eftirliti með kaupaukakerfi ef innri eftirlitseiningum er ekki til að dreifa, sbr. 3. mgr. 13. gr.
  10. Tilvísunum til ákvæða um eiginfjárauka og hámarksútgreiðslufjárhæðar hefur verið bætt við ákvæði um afturköllun kaupauka, sbr. 4. mgr. 14. gr.

Drög að reglunum voru send í umsagnarferli þann 21. desember sl. Umsagnaraðilar voru öll fjármálafyrirtæki sem falla munu undir reglurnar, Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Seðlabanki Íslands.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica