Nýtt skipurit Fjármálaeftirlitsins
Stjórn Fjármálaeftirlitsins staðfesti fyrr í þessari viku
nýtt skipurit fyrir stofnunina. Markmið breytinganna er meðal annars að skýra
ábyrgðarlínur innan Fjármálaeftirlitsins og gera skipulag þess aðgengilegt
fyrir þá sem eiga í samskiptum við stofnunina. Hið nýja skipurit fellur
ennfremur betur að evrópska fjármálaeftirlitsumhverfinu, sem Fjármálaeftirlitið
er hluti af, og gildandi stefnu þess en það eldra.
Engar uppsagnir fylgja skipulagsbreytingunum.
Eftirlitssvið Fjármálaeftirlitsins verða fjögur samkvæmt nýju
skipuriti. Sviðin eru: eftirlit með fjármálafyrirtækjum, eftirlit með
lífeyrissjóðum og vátryggingafélögum, eftirlit með viðskiptum á markaði og
eftirlit þvert á markaði.
Í tilefni skipulagsbreytinganna hafa störf þriggja
framkvæmdastjóra nýrra sviða verið auglýst, meðal annars á starfatorgi. Það eru
framkvæmdastjórar: eftirlits með fjármálafyrirtækjum, eftirlits þvert á markaði og eftirlits með viðskiptum á markaði.