Þrír framkvæmdastjórar nýrra eftirlitssviða ráðnir
Gengið hefur verið frá ráðningu þriggja framkvæmdastjóra á nýjum eftirlitssviðum Fjármálaeftirlitsins, en störfin voru auglýst laus til umsóknar þann 13. janúar. Björk Sigurgísladóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hlítingar og úttekta, Finnur Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri bankasviðs og Páll Friðriksson framkvæmdastjóri markaða og viðskiptahátta.
Björk Sigurgísladóttir er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands, Hdl réttindi, auk LLM gráðu frá University of Iowa og MBA gráðu frá University of Northern Iowa. Björk hóf störf hjá Fjármálaeftirlitinu árið 2008, fyrst sem lögfræðingur á lánasviði og síðan í lagalegu eftirliti á eftirlitssviði. Frá 2012 hefur hún svo starfað þar sem forstöðumaður.
Finnur Sveinbjörnsson er með BS gráðu í hagfræði frá University of Leicester og MA gráðu í opinberri stjórnsýslu og hagfræði frá University of Minnesota. Finnur er einnig með próf í verðbréfaviðskiptum. Finnur var nú síðast forstöðumaður alþjóðasviðs Borgunar og starfaði sjálfstætt sem óháður ráðgjafi, stjórnarmaður og í endurskoðunarnefndum 2010-2017. Finnur var bankastjóri Arion banka 2008-2010 og Sparisjóðabanka Íslands 2002-2007. Áður var hann m.a. framkvæmdastjóri Verðbréfaþings Íslands, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra viðskiptabanka og skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu.
Páll Friðriksson er með BA og MA próf í lögfræði frá Háskóla Íslands og próf í verðbréfaviðskiptum. Hann hóf störf hjá Fjármálaeftirlitinu í nóvember 2007 sem lögfræðingur í verðbréfaeftirliti. Árið 2013 tók Páll við sem forstöðumaður verðbréfamarkaðseftirlits og gegndi þar tímabundinni stöðu framkvæmdastjóra veturinn 2016-17.
Þessar þrjár ráðningar eru hluti af skipulagsbreytingum hjá Fjármálaeftirlitinu sem miða að því að auka skilvirkni í stjórnun og styrkja heildaryfirsýn yfir helstu málaflokka stofnunarinnar.