Umræðuskjal um drög að leiðbeinandi tilmælum um hugtakanotkun og skýringar í ársreikningum vátryggingafélaga
Fjármálaeftirlitið hefur gefið út umræðuskjal nr. 10/2018 um drög að leiðbeinandi tilmælum um hugtakanotkun og skýringar í ársreikningum vátryggingafélaga.
Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi skulu ársreikningar gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu vátryggingafélaga og ber félögunum að semja ársreikninga sína í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að þær upplýsingar sem eru ekki staðlaðar í alþjóðlegum reikningsskilastöðum séu settar fram á samræmdan hátt, sbr. 3. mgr. 53. gr. sömu laga.
Til samræmis við hlutverk sitt hefur Fjármálaeftirlitið ákveðið að gefa út leiðbeinandi tilmæli um hugtakanotkun og skýringar í ársreikningum vátryggingafélaga með vísan til 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Umsagnaraðilar eru vinsamlegast beðnir um að skila umsögnum rafrænt á þar til gerðu umsagnareyðublaði, en umræðuskjalið ásamt eyðublaði er að finna undir réttarheimildir á heimasíðunni. Umsagnareyðublaðið skal sent á netfangið fme@fme.is.
Þess er óskað að umsagnir berist eigi síðar en 11. janúar næstkomandi.